Fara beint í efnið

Efling klínískrar lyfjafræði á Akureyri

24. janúar 2024

Sjúkrahúsið á Akureyri, LSH, HÍ og HA ásamt Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu fengu á dögunum úthlutað styrk úr samstarfssjóði háskólanna fyrir verkefnið Efling klínískrar lyfjafræði á Akureyri.

Lyfjaþjónusta_FB

Verkefnið snýr að uppbyggingu á hlut af sérnámi í klínískri lyfjafræði við Sjúkrahúsið á Akureyri. Þróun námsins er talin brýn til að fjölga klínískum lyfjafræðingum til að mæta þörfum heilbrigðiskerfisins og bæta aðgengi að menntun á landsbyggðinni. Í stóra samhenginu er markmiðið því að bæta gæði, öryggi og hagkvæmni í lyfjamálum sjúklinga.

„Þar sem SAk er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins er það sérstaklega mikilvægt að sjúkrahúsið fái tækifæri til þess að byggja upp klíníska lyfjaþjónustu og taka þátt í að þjálfa og mennta klíníska lyfjafræðinga. Með þessari þróun gerum við okkur vonir um að fleiri klínískir lyfjafræðingar muni starfa utan höfuðborgarsvæðisins í kjölfarið,“ segir Jóna Valdís Ólafsdóttir, deildarstjóri lyfjaþjónustu SAk.

Samstarfssjóður háskólanna er mikil hvatning til samstarfs háskólanna og í því felast mikil tækifæri eins og þessi umsókn sýndi. Samstarfið felst í að byggja upp menntun og þjálfun samhliða því að veita klíníska lyfjafræðiþjónustu á SAk og HSN á seinni stigum með þá framtíðarsýn að bæta heilbrigðisþjónustu og aðgengi að menntun utan höfuðborgarsvæðisins.

Verkefnið mun auka námsframboð og möguleika til framhaldsnáms á háskólastigi utan höfuðborgarsvæðisins með því að útvíkka sérnám í klínískri lyfjafræði við HÍ með samstarfi HÍ og HA.

„Nú munum við leggjast aftur yfir verkefnið og skipuleggja næstu skref,“ segir Jóna Valdís að lokum.