Dagskrá í tilefni af degi hjúkrunar á SAk
7. maí 2024
„Við gerum svo miklu, miklu meira“
Mennta- og vísindadeild Sjúkrahússins á Akureyri stendur að metnaðarfullri dagskrá í tilefni af degi hjúkrunar. Dagur hjúkrunar er 12. maí en þar sem daginn ber þetta árið upp á sunnudag er boðið uppá dagskrá í tilefni hans miðvikudaginn 8. maí milli kl. 8:30 og 16 í Kjarna – fundarherbergi á 2. hæð SAk. Viðburðinum verður einnig streymt. Eftir dagskránna verður boðið upp á kaffi og léttar veitingar í hermisetri og kennsluaðstöðu mennta- og vísindadeildar SAk á 3. hæð.
Yfirskrift dagskrárinnar er „Við gerum svo miklu, miklu meira“ og hefur vísan í þau fjölmörgu sérverkefni sem hjúkrunarfræðingar á deildum sinna meðfram sínu klíníska starfi. Í tilefni dagsins verða nokkur af þessum mikilvægu verkefnum kynnt.
„Við viljum leggja áherslu á að taka enn betur á móti nýjum hjúkrunarfræðingum á SAk og því verður kynning á verkefninu Fyrsta árið í starfi sem stendur öllum hjúkrunarfræðingum til boða sem hefja störf á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Í dagskránni er lögð áhersla á að kynna störf sérfræðinga í hjúkrun í tilefni þess að nú er í boði formlegt leiðsagnarár til sérfræðiviðurkenningar eða sérnám í hjúkrun við SAk,“ segir Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun og fræðslustjóri á mennta- og vísindadeildar. Í dag starfa átta sérfræðingar í hjúkrun á mismunandi deildum SAk auk þess sem þrír hjúkrunarfræðingar eru í sérnámi í hjúkrun við SAk.
Dagskráin „Við gerum svo miklu, miklu meira“ í tilefni af degi hjúkrunar er öllum opin og einnig í streymi.