Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Breytingar á endurhæfingar - og öldrunarlækningaþjónustu

2. október 2025

Markmið okkar á Sjúkrahúsinu á Akureyri er að tryggja samræmda, faglega og markvissa endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu fyrir skjólstæðinga okkar.

Stjórnendur endurhæfingardeildar í Kristnesi, í samvinnu við framkvæmdastjórn sjúkrahússins, hafa unnið ötullega að því að marka stefnu endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að veita gæðaþjónustu, á réttum stað og á réttum tíma, þeim hópum sem eru í mestri þörf fyrir sérhæfða þverfaglega endurhæfingu.

Sem lið í að ná því markmiði hefur verið tekin ákvörðun um að frá og með 1. janúar 2026 verði starfsemi endurhæfingardeildar á Kristnesi breytt í 5 daga deild ásamt dagdeild, með skýra áherslu á sérhæfða þverfaglega endurhæfingu fyrir fólk á öllum aldri.

Samhliða þessum breytingum verður unnið að því að styrkja endurhæfingarþjónustu á bráðadeildum sjúkrahússins ásamt því að setja á laggirnar öldrunarteymi lyflækninga sem hefur það hlutverk að styrkja þjónustu við aldraða á bráðadeildum sjúkrahússins.

Til að fylgja eftir þessum breytingum verður stofnaður stýrihópur skipaður fulltrúum frá endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu, bráðlegudeildum o.fl. en hlutverk hópsins verður að styðja við og fylgja eftir innleiðingunni ásamt því að leggja mat á árangur.

Breytingum sem þessum fylgja jafnan áskoranir en með samstilltu átaki vonumst við til að breytingarnar skili okkur skilvirkari endurhæfingar- og öldrunarþjónustu.