Bráðadagurinn: Börn í bráðum vanda
14. mars 2025
Bráðadagurinn 2025 var haldinn þann 7. mars. Um er að ræða árlega ráðstefnu á vegum bráðaþjónustu Landspítala, þar sem kynntar eru rannsóknir og verkefni sem unnin hafa verið í tengslum við bráðaþjónustu á Íslandi. Hefð hefur skapast fyrir því að fá sérfræðinga til að kynna störf sín og rannsóknir tengd þema dagsins.

Bráðadagurinn 2025 var haldinn þann 7. mars. Um er að ræða árlega ráðstefnu á vegum bráðaþjónustu Landspítala, þar sem kynntar eru rannsóknir og verkefni sem unnin hafa verið í tengslum við bráðaþjónustu á Íslandi. Hefð hefur skapast fyrir því að fá sérfræðinga til að kynna störf sín og rannsóknir tengd þema dagsins.
Á bráðadeginum í ár var lögð áhersla á bráðavandamál barna, bráð veikindi og áverka, ofbeldi og geðrænan vanda og annað sem bráðaþjónustan sinnir. Ráðstefnan er þverfagleg og hana sækir fagfólk í þjónustu bráðveikra einstaklinga hvaðanæva að úr samfélaginu.
Barnabráðalæknir á SAk flutti opnunarerindi
Bergþór Steinn Jónsson, barnabráðalæknir á SAk, flutti opnunarerindið um bráðamóttöku fyrir börn. Í opnunarerindinu fjallaði Bergþór m.a. um sérnám í bráðalækningum barna og starfsemina á sérhæfðum barnabráðamóttökum en einnig starfsemina okkar á SAk. Einnig fjallaði hann um verkefni sem kallast Pediatric Readiness sem miðar að því að gera almennar bráðamóttökur betur í stakk búnar til þess að sinna börnum með bráð veikindi og áverka.
„Það er alltaf gaman að sækja bráðadaginn sérstaklega með svona stórum og góðum hópi samstarfsfólks af bráðamóttöku SAK. Það var mikill heiður að fá að flytja opnunarerindið og vonandi náði ég að vekja aukinn áhuga á bráðalækningum barna. Einnig var gott að finna samstöðuna þegar fram fóru pallborðsumræður þar sem fulltrúar víða úr heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni ræddu um hvernig við getum einsett okkur að bæta þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu vegna ofbeldis eða vímuefna,“ segir Bergþór.
Fjölbreytt umfjöllunarefni
Umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru fjölbreytt, fjallað var um: börn og fíknisjúkdóma, bráðamóttöku barna, tækjabúnað, öpp og verkferla, endurlífgun nýbura, slævingar barna fyrir inngrip innan spítala, faraldsfræði og endurhæfing endurtekinna höfuðáverka hjá börnum 0–17 ára á Íslandi frá 2010–2021, heilbrigðisþjónustu við börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi, komur vegna rafskútuslysa á Landspítala sumrin 2023 og 2024 og hvernig skuli efla bráðaþjónustu við börn á Íslandi.
Ályktanir samþykktar
Umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru fjölbreytt, en eftir umræður ályktuðu ráðstefnugestir og flytjendur erinda um eftirfarandi:
Barnvæn nálgun á að vera í fyrirrúmi þegar börnum er veitt heilbrigðisþjónusta
Tryggja þarf öllum börnum viðeigandi bráðaþjónustu óháð búsetu.
Efla þarf menntun og sérhæfingu í bráðalækningum barna og bráðahjúkrun barna.
Samþætta þarf bráðaþjónustu við börn á höfuðborgarsvæðinu á einni sérhæfðri barnabráðamóttöku sem getur sinnt bráðavandamálum af öllum gerðum; veikindum, áverkum, ofbeldi og geðrænum vanda, meðal annars með því að samhæfa og efla þverfaglega þjónustu.
Tryggja þarf að börn með fíknivanda fái heildstæða bráðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu þar sem unnt er að meta þau með tilliti til áverka, sýkinga, geðræns vanda, eitrana og fráhvarfseinkenna. Í framhaldi þurfa þau börn að hafa tafarlausan, greiðan aðgang að viðeigandi meðferðarúrræði.