Fara beint í efnið

Ánægjulegt að vinna með mömmu

24. maí 2024

Starfsfólk sem lætur af störfum vegna aldurs var heiðrað á ársfundi SAk sem fram fór í dag. Um var að ræða 10 manns sem hafa mörg hver starfað á sjúkrahúsinu til fjölda ára.

Heiðrað starfsfólk á ársfundi 2024

„Það var gaman að stýra ársfundi þar sem mamma mín var heiðruð fyrir hennar ötula starf í þágu sjúkrahússins. Við unnum nú meira að segja saman á skurðlækningadeildinni bæði fyrir og eftir sérnám mitt sem var afskaplega ánægjulegt og gefandi held ég fyrir okkur bæði,“ sagði Helgi Þór Leifsson, fundarstjóri og framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu.

Sjúkrahúsið á Akureyri metur allt sitt starfsfólk mikils og á síðasta ári hefur stuðningur við starfsfólkið verið í miklum fókus. „Við innleiddum velferðartorg og erum eins og svo margar aðrar heilbrigðisstofnanir að glíma við miklar áskoranir í mönnun, þeim mun mikilvægara er það fyrir okkur að þakka okkar einvala starfsfólki fyrir vel unnin störf áður en það heldur á vit nýrra ævintýra á bestu árunum,“ sagði Hulda S. Ringsted framkvæmdastjóri hjúkrunar.

Starfsfólkið fékk fallegt kort úr smiðju Vorhús en einnig smá þakklætisvott í formi gjafabréfs og peningainneignar.

Þau sem voru heiðruð voru:

  • Bryndís Reynisdóttir, bráðamóttaka

  • Auður Helga Hjaltadóttir, skrifstofa fjármála

  • María Þórðardóttir, ræstimiðstöð

  • Elísabet Gestsdóttir, vörulager

  • Margrét Sigtryggsdóttir, ræstimiðstöð

  • Björg Brynjólfsdóttir, rannsóknadeild

  • Vinbjörg Ásta Guðlaugsdóttir, sjúkraþjálfun

  • Fanney Friðriksdóttir, lyflækningadeild

  • Guðrún Bjarney Leifsdóttir, rannsóknadeild

  • Hjördís Gunnarsdóttir, rannsóknadeild

Sjúkrahúsið á Akureyri þakkar kærlega fyrir ötula vinnu í þágu sjúkrahússins og óskar öllu fráfarandi starfsfólki alls hins besta á nýju æviskeiði.