Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar er í dag
27. október 2023
Við Sjúkrahúsið á Akureyri eru starfandi um 14 iðjuþjálfar – og einn fjórfættur. Þeir sinna skjólstæðingum í endurhæfingu á Kristnesi, á bráðadeildum SAk og á geðdeildinni.
„Iðjuþjálfun er vaxandi faggrein um allan heim og viðfangsefni iðjuþjálfa eru afar fjölbreytileg. Leiðarljósið er að standa vörð um og efla iðju, þátttöku, heilsu og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga. Iðjuþjálfar starfa með fólki á öllum aldri sem af einhverjum ástæðum glímir við iðjuvanda sem hamlar þeim í hversdeginum og hindrar þátttöku. Iðjuþjálfar eru ein af lykilstéttunum innan forvarna, vinnuverndar og endurhæfingar. Þjónusta þeirra og vinnuaðferðir byggja á gagnreyndri þekkingu og viðurkenndu verklagi. Starfsvettvangurinn er breiður og má nefna heilbrigðis- og félagsþjónustu, skóla, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, stjórnsýslu og fyrirtæki á almennum markaði,“ segir á vefsíðu iðjuþjálafélags Íslands sem í dag fagnar alþjóðlegum degi iðjuþjálfunar með málþingi.
Innan Sjúkrahússins á Akureyri eru starfandi um 14 iðjuþjálfar
Verkefni iðjuþjálfa á bráðadeildum og á Kristnesi eru töluvert ólík. Á sjúkrahúsinu er mikið um ADL (Athafnir Daglegs Lífs) mat og þjálfun sem og mat á vitrænni getu. Iðjuþjálfi fer í forviðtöl fyrir skipulagðar aðgerðir og þeim málum fylgt eftir á legudeildum. Heimilisathugun er einnig stór þáttur í starfinu sem og mat, kennsla og útvegun ýmissa hjálpartækja.
Á Kristnesi er unnið í þverfaglegu endurhæfingarteymi að markmiðum skjólstæðingsins. Iðjuþjálfinn notar ýmsa iðju til að meta og þjálfa upp færni, sem dæmi má nefna daglega iðju eins og að borða eða þjálfa upp fínhreyfingar og samhæfingu við að sauma við saumavél. Farið er í heimilisathugun, gert ökumat, hjálpartækjaþörf metin og ýmiss ráðgjöf veitt eins og við líkamsbeitingu eða jafnvægi í daglegu lífi.
Skýrsluskrif og fundir taka orðið ansi stóran hluta af vinnutíma iðjuþjálfa en er mjög mikilvægt að sinna.
Fimm iðjuþjálfar vinna með fullorðnum á geðdeild en einn er í BUG – barna og unglingateyminu
Helstu verkefni iðjuþjálfa innan fullorðins geðdeildar eru að skipuleggja einstaklings-, hópameðferðir og fjölfaglegar meðferðir með meðferðarteymi og vísa til annarra fagaðila eða í viðeigandi þjónustu við útskrift. Einstaklingsmeðferðir eru að mestu unnar á grunni málastjórnar þar sem iðjuþjálfar ásamt öðrum fagstéttum halda utan um mál viðkomandi í samráði við teymið. Sú vinna er einna helst í formi viðtala eða virkni sem getur átt sér stað innan sjúkrahússins eða úti í samfélaginu.
Iðjuþjálfar halda einnig utan um dagþjónustuna á geðdeildinni og hafa byggt það starf upp ásamt stuðningi frá öðrum fagstéttum. Þar sinna þeir inntöku einstaklinga í dagþjónustu og meta hvert mál fyrir sig m.t.t. stöðu einstaklings og stefnu hans og móta meðferðaráætlanir með skjólstæðingum, sinna dagskrárliðum dagþjónustu sem eru ýmist opnir eða lokaðir hópar innan húss eða úti í samfélaginu.
Í BUG teyminu vinnur iðjuþjálfi í þverfaglegu teymi. Þar sinnir iðjuþjálfi einna helst hlutverki málastjóra sem m.a. felst í meðferðarvinnu og að samþætta þjónustuna við önnur kerfi sem koma að málum einstaklinganna í samvinnu við fjölskyldur. Hann sinnir einnig bráðaþjónustu ásamt öðrum fagaðilum teymisins.
Aðal „iðjuþjálfinn“ er hundur
Á geðdeildinni er einnig starfandi fjórfættur „iðjuþjálfi“ en það er geðræktarhundurinn Leó. Hans styrkleiki liggur í núvitund og hann gerir ekki upp á milli manna þannig að hjá honum fá allir sömu meðferð. Leó er orðin víðfrægur og heldur út eigin Facebook-síðu. Sjá hér.
„Iðjuþjálfun er fjölbreytt og skemmtilegt starf og eiginlega ekki hægt að segja frá því öllu í stuttu máli!“
Nafn: Linda Aðalsteinsdóttir
Fæðingarár: 1973
Hvaðan ertu: Ólafsfirði
Menntun: Lauk námi í iðjuþjálfun frá Halsohögskolan í Jönköping í Svíþjóð 1997 og meistaragráðu frá Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri 2016.
Áhugamál: Ferðalög, lestur bóka, hreyfing.
Hvað varstu í fyrra lífi: Sennilega er þetta mitt fyrsta
Sturluð staðreynd: Fór í fyrsta skiptið til útlanda 20 ára gömul.
Hvernig lítur dagur út í lífi iðjuþjálfa á Kristnesi og bráðadeildum SAk:
Ég starfa á Kristnesi og þar hittumst við oft fyrst með morgunbollann og förum yfir verkefni dagsins eða bara ræðum lífið og tilveruna ef annað þarf ekki að taka fyrir. Sumir fara upp á deild í ADL þjálfun (Athafnir Daglegs Lífs) en þá er skjólstæðingurinn að æfa sig í raunverulegum aðstæðum að klæða sig í föt, þvo sér og snyrta og flytja sig fram í morgunmat til að borða. Dagarnir eru síðan mjög fjölbreyttir: fara fram í mat og þjálfun og í gegnum ýmsa iðju, heimilisathugun, ökumat á vegum úti, fjölskyldufundir, meta þörf fyrir og útvega hjálpartæki, eta vitræna og líkamlega getu með ýmsum matstækjum, skimunarprófum, gátlistum og áhorfi.
Fræðsla er stór hluti af starfinu og fer hún fram í hópum jafnt sem á einstaklingsgrunni. Algengt er að iðjuþjálfar séu að leiðbeina iðjuþjálfanemum í verknámi.
Hvað er skemmtilegast í vinnunni: Dásamlega samstarfsfólkið og fjölbreyttu verkefnin. Enginn dagur er eins.
Hvað er mest krefjandi í vinnunni: Þegar illa gengur að útskrifa fólk heim t.d. vegna veikinda eða hindrana í umhverfinu.
Ef þú mættir breyta einhverju í vinnunni, hvað væri það:
Að samfélagið væri betur undirbúið að taka á móti skjólstæðingum okkar eftir endurhæfingu og í boði væru fleiri úrræði til að gera fólki kleift að búa heima ef það kýs svo.