Alþjóðadagur sykursýki er í dag
14. nóvember 2023
14.nóvember ár hvert er alþjóðlegur dagur sykursýki. Sykursýki er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af hækkuðum blóðsykri vegna þess að líkaminn getur ekki unnið úr sykrinum á fullnægjandi hátt.
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er einstaklingum með sykursýki sem uppfylla ákveðin skilyrði sinnt á innkirtlamóttöku. Þeir skjólstæðingar koma í viðtöl á 3 – 6 mánaða fresti þar sem farið er yfir meðferðina og árangur hennar, veittur stuðningur og fræðsla sem við á. Árlega er svo stærri skoðun þar sem skimað er fyrir ákveðnum áhættuþáttum. Þá er skjólstæðingum einnig fylgt eftir með símtölum eða tölvupóstum eftir því sem við á.
Starfsfólk innkirtlamóttöku er í góðu samstarfi við fyrirtæki sem framleiða og selja sykurnema og insúlíndælur. Það aðstoðar skjólstæðinga að setja upp þessi tæki og sinnir fræðslu og ráðgjöf fyrir inniliggjandi skjólstæðinga ásamt starfsfólki SAk og annarra heilbrigðisstofnanna.