Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Beiðni Landspítala um leiðbeiningar vegna sjálfvirkrar flokkunar á sjúklingum með Covid-19

Landspítalib.t. persónuverndarfulltrúaSkaftahlíð 24105 Reykjavík

Reykjavík, 7. janúar 2022Tilvísun: 2022010079/VEL

Efni: Beiðni Landspítala um leiðbeiningar vegna sjálfvirkrar flokkunar á sjúklingum með Covid-19

1.

Erindi Landspítala

Fyrr í dag barst Persónuvernd erindi persónuverndarfulltrúa Landspítalans þar sem óskað var eftir leiðbeiningum í tengslum við fyrirhugaða sjálfvirka flokkun einkennalausra sjúklinga með Covid-19. Í erindinu óskar spítalinn eftir flýtimeðferð vegna þess mikla álags sem er á Landspítala þessa dagana í tengslum við Covid-19-faraldurinn.

Í erindi spítalans segir að vegna þess álags sem er nú á Covid-göngudeild Landspítala sé nú unnið að tæknilegri og sjálfvirkri útfærslu þar sem einkennalausir Covid-sjúklingar verði sjálfvirkt færðir í hóp þar sem eftirlit spítalans með þeim verði alfarið rafrænt.

Nánar segir í erindinu að nýgreindur einstaklingur með Covid-19 muni fá sendan spurningalista gegnum Heilsuveru (upphafsmat á einkennum). Fyrirhugað sé að einkennalausir einstaklingar flokkist sjálfvirkt í nýjan og sérstakan hóp, í stað þess að læknir yfirfari handvirkt alla spurningalista og flokki einkennalausa í rafrænt eftirlit. Muni þessi hópur verða alfarið í rafrænu eftirliti, sem felist í því að einstaklingarnir fái sendan nýjan spurningalista daglega rafrænt. Í spurningalistanum muni sjúklingur einnig geta óskað eftir símtali, kjósi hann svo. Komi hins vegar fram einkenni muni sjúklingur færast úr sjálfvirka hópnum í hefðbundið ferli. Þá segir að sé Covid-sjúklingur einkennalaus allan einangrunartímann sé stefnt að sjálfvirkri útskrift.

Óskar spítalinn leiðbeininga um hvort líta beri á þessa sjálfvirku upphafsflokkun sem sjálfvirka einstaklingsmiðaða ákvarðanatöku í skilningi 22. gr. laga nr. 90/2018 og 22. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Einnig óskar spítalinn eftir leiðbeiningum um hvort umræddir spurningalistar, sem muni færast sjálfvirkt í sjúkraskrá viðkomandi sjúklings, teljist hluti af sjúkraskrá og hvort sækja þurfi um leyfi Persónuverndar samkvæmt reglum nr. 811/2019 ef samkeyra á svör við spurningalistum við ákveðna þætti úr sjúkraskrá.

2.

Svar Persónuverndar

Í 22. gr. laga nr. 90/2018 og 22. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 er fjallað um réttindi hins skráða þegar ákvörðun, sem hefur réttaráhrif að því er hann sjálfan varðar eða snertir hann á sambærilegan hátt að verulegu leyti, er tekin eingöngu á grundvelli sjálfvirkrar gagnavinnslu. Kemur fram að hinn skráði skal eiga rétt á að ekki sé tekin slík ákvörðun nema fullnægt sé einhverju nánar tiltekinna skilyrða.

Með vísan til lýsingar framangreindra ákvæða á hvað fellur undir sjálfvirka einstaklingsmiðaða ákvarðanatöku er það mat Persónuverndar að fyrirhuguð framkvæmd Landspítalans á flokkun einkennalausra sjúklinga með Covid-19 teljist ekki slík ákvörðun.

Hvað varðar það hvort umræddir spurningalistar tilheyri sjúkraskrá viðkomandi sjúklings er nauðsynlegt að líta til þess hvernig hugtakið sjúkraskrá er skilgreint í lögum nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Í 5. tölul. 3. gr. laganna segir að sjúkraskrá sé safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem unnar eru í tengslum við meðferð eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns. Af erindi Landspítalans verður ekki annað ráðið en að spurningalistarnir hafi að geyma slíkar upplýsingar og skuli því vera hluti af sjúkraskrá viðkomandi.

Um leyfisskylda vinnslu er fjallað í reglum nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Í 4. gr. reglnanna segir að samkeyrsla skráar sem hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar við aðra skrá, hvort sem hún hefur að geyma almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar, sé leyfisskyld. Jafnframt er hins vegar mælt fyrir um undantekningar frá þessu, m.a. þegar samkeyrðar eru skrár sama ábyrgðaraðila, þó að undanskildum miðlægum skrám sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd að ekki sé hér um að ræða samkeyrslu persónuupplýsinga sem háð sé leyfi stofnunarinnar. Sé fyrirhugað að samkeyra upplýsingar úr umræddum spurningalistum við aðrar upplýsingar, sem ekki eru í vörslu spítalans, eða vinna með þær í öðrum tilgangi, svo sem vegna vísindarannsókna á heilbrigðissviði, getur hins vegar þurft að sækja um leyfi hjá stofnuninni eða, eftir atvikum, siðanefndum samkvæmt lögum nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson Vigdís Sigurðardóttir

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820