Lokun á íslensk greiðslukort
Persónuvernd hefur borist erindi yðar, dags. 11. ágúst sl., þar sem þér kvartið yfir því að A hafi beðið breska fyrirtækið B að hafna viðskiptum við þá sem greiða fyrir áskrift að sjónvarpsstöðvum fyrirtækisins með íslenskum greiðslukortum. Í rökstuðningi fyrir kvörtuninni segir að upplýsingar sem þér veitið greiðslukortafyrirtæki eigi að vera trúnaðarmál milli yðar og þess og að kortið eigi ekki að nota til að kanna persónuupplýsingar, s.s. um það að þér séuð Íslendingur.
Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að A hafi unnið með persónuupplýsingar um íslenska korthafa, þ.e. fengið afhentar persónuupplýsingar eða miðlað þeim til annarra. Aðeins liggur fyrir að samtökin hafi óskað eftir því að B kanni hverjir greiða fyrir áskrift með íslenskum greiðslukortum og hafni viðskiptum við þá aðila. Það er því ekki á valdsviði Persónuverndar að skera úr um lögmæti slíks, en rétt er að benda yður á að D hafa falið lögmanni að kanna hvort A og B hafi lagalegar heimildir til aðgerða af þessu tagi.
Í tilefni af erindi yðar, sem og fjölmörgum fyrirspurnum sem borist hafa stofnuninni símleiðis um þessar aðgerðir, hafði undirrituð samband við íslensku greiðslukortafyrirtækin E og F. Bæði félögin lýstu því yfir að þau kæmu ekki að umræddri lokun á íslensk kort hjá B. Af hálfu F var bent á að fyrstu sex stafirnir í kortanúmeri bera með sér hver útgáfubankinn er. Á þann hátt gæti B hugsanlega greint íslensk greiðslukort frá öðrum.
Eins og að framan greinir úrskurðar Persónuvernd í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Þar sem ekki liggur fyrir að E og F hafi miðlað persónuupplýsingum til B eru ekki efni til afskipta Persónuverndar af málinu. Úrskurðarvald um ágreining um lögmæti þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað hjá fyrirtækinu B er í höndum bresku persónuverndarstofnunarinnar, Information Commissioner (sjá heimasíðu stofnunarinnar, www.informationcommissioner.gov.uk).