Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

6. október 2009

Eftirlitsmyndavélar í leigubifreiðum

I.

Fyrirspurn frá Icetronica ehf. og

Bifreiðastöðinni Hreyfill-Bæjarleiðir

Persónuvernd barst tölvubréf, dags. 21. september 2009, með fyrirspurn Icetronica ehf. og Bifreiðastöðvarinnar Hreyfill-Bæjarleiðir um upptökur í leigubílum. Í bréfaskiptum vegna málsins kemur fram að fyrirhugað sé að koma fyrir búnaði sem taki mynd af aftur- og framsæti bifreiðar. Þá verði til upplýsingar um staðsetningu hennar og tíma upptöku. Fyrirhugað er að aðvara farþega með því að líma upplýsinga- og viðvörunarmiða í hliðarrúður afturhurða. Auk þess verði einn miði inni í hverri bifreið. Samkvæmt símtali við Harald Hjartarson, framkvæmdastjóra sölusviðs Icetronica, er tilgangurinn öryggis- og eignavarsla. Standa vonir til þess að með þessum búnaði megi m.a. upplýsa um umferðaróhöpp eða brot á umferðarreglum, brot á hegðunarreglum farþega, þjófnaði og stemma stigu við hótunum og árásum gegn leigubílstjórum. Varðveisla þeirra persónuupplýsinga sem um ræðir er allt frá 4 klukkustundum og upp í 51 klukkustund. Er ekki fyrirhugað að nokkrar persónuupplýsingar verði varðveittar lengur en í 51 klukkustund.

II.

Svar Persónuverndar

1.

Aðvörunar- og fræðsluskylda

Tilgangur og meðalhóf

Í 24. gr. laga nr. 77/2000 er sérregla um viðvaranir um rafræna vöktun. Ákvæðið tekur til rafrænnar vöktun á vinnustöðum og almannafæri. Þegar vöktun fer hins vegar fram á svæðum sem nátengdari eru einkalífi manna eru alla jafna fyrir hendi nánari tengsl við hinn skráða sem gera frekari fræðslu mögulega. Leigubifreiðar hafa almennt ekki verið taldar til þannig svæða. Þar nægir því alla jafna að veita almenna aðvörun samkvæmt 24. gr. Í þessu sambandi má geta álits, dags. 16. apríl 2009, mál 2009-112-0174, frá systurstofnun Persónuverndar í Danmörku, Datatilsynet (om videoovervågning i taxaer). Í því er höfuðáhersla lögð á aðvörun og fræðslu til hins skráða, þ.e. rétt farþega til fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga um sig. Segir að sá réttur gildi fullum fetum þegar kemur að rafrænni vinnslu persónuupplýsinga, t.d. við rafræna vöktun og töku stafrænna ljósmynda. Datatilsynet bendir sérstaklega á að reglur um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila gildi samhliða skyldu ábyrgðaraðila til að gera hinum skráða viðvart um vöktun, t.d. með skiltum eða auglýsingum.

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 77/2000 er skylt að gera aðvart um rafræna vöktun þannig að sérhverjum manni sem fer um vaktað svæði eigi að geta verið kunnugt um hana. Hafa hin almennu ákvæði laganna um fræðslu, s.s. í 20. og 21. gr., verið talin falla illa að þessari tegund vinnslu persónuupplýsinga. Þegar rafræn vöktun fer fram verða oft engin bein tengsl milli ábyrgðaraðila og hins skráða og í raun verður ábyrgðaraðila jafnvel aldrei kunnugt um nafn eða heimili hins skráða. Geti ákvæði 20. og 21. gr. um einstaklingsbundna fræðslu því átt illa við. Að því marki, og í þeim tilvikum sem fræðslu samkvæmt þeim ákvæðum verður hins vegar við komið, gilda þau þó fullum fetum.

Í 4. gr. laga nr. 77/2000 er til áréttingar einnig tekið fram að vöktun á svæði þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði sé háð því að til hennar standi sérstök þörf. Hér er t.d. átt við vinnustaði þar sem sérstakrar aðgæslu er þörf. Telja má leigubifreiðar falla hér undir nema eitthvað alveg sérstakt komi til. Þá þarf öll vöktun, þ. á m. sú sem fer fram í legubifreiðum, að uppfylla skilyrði 7. gr., þ. á m. um sanngirni, meðalhóf og málefnalegan tilgang.

Í 24. gr. laga nr. 77/2000 er ekki sérstaklega mælt fyrir um útlit eða gerð viðvarana að öðru leyti en því að þær skulu vera „áberandi" og að fram skuli koma hver sé ábyrgðaraðili vöktunarinnar. Er eðlilegt að aðvaranir um rafræna vöktun skuli settar upp í þægilegri fjarlægð fyrir farþega. Þær mega innihalda táknmyndir.

Í 2. tl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er fjallað um miðlun persónuupplýsinga sem safnast við rafræna vökun. Þar segir að ekki megi afhenda öðrum slíkar upplýsingar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu.)

2.

Samantekt

a. Lögmæti eftirlitsbúnaðar í leigubifreiðum er háð því að notkun hans eigi sér málefnalegan tilgang og sé nauðsynleg, s.s. vegna öryggis farþega og bílstjóra.

b. Ekki má varðveita persónuupplýsingar lengur en nauðsyn krefur til að ná þeim tilgangi.

c. Að því varðar hugsanlega miðlun upplýsinga gildir 2. tl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

d. Veita þarf farþegum fullnægjandi fræðslu um myndatöku og aðra vöktun í bifreiðunum. Þegar aðeins er veitt fræðsla með merkingum skulu þær vera skýrar og staðsettar þannig að farþegar sjái þær auðveldlega. Nota má táknmyndir.

Að uppfylltum framangreindum skilyrðum gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við uppsetningu umrædds búnaðar í leigubifreiðum.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820