24. apríl 2009
Birting mynda af dæmdum barnaníðingum á netinu
Í dómum eru nöfn afmáð úr textum, m.a. til að þess að vernda fórnarlömb misnotkunarinnar. Í stað nafna eru settir bókstafir. Með því að birta nafn geranda, til dæmis þegar hann er faðir þolanda, er barnið svipt þeirri vernd sem nafnleyndinni er ætlað að veita. Það getur leitt til skerðingar á friðhelgi barnsins, sérstaklega þegar haft er í huga að í dómum er oft að finna mjög ítarlegar málsatvikalýsingar og viðkvæmar persónuupplýsingar um barnið. Opinber birting getur gengið mjög nærri því.
Persónuvernd hefur sent svar við fyrirspurn:
Þau lög, sem Persónuvernd starfar eftir og hefur það hlutverk að framfylgja, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Með vinnslu er átt við sérhverja aðgerð þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar.
Birting mynda af fólki á Netinu felur í sér vinnslu persónuupplýsinga í framangreindum skilningi þegar greina má hvaða einstaklinga um ræðir. Ef svart strik yfir augu manns gerir það að verkum að hann verður óþekkjanlegur er ekki um að ræða persónuupplýsingar um hann og gilda þá ekki áðurnefnd lög. Ekki er víst að slíkt strik geri það ávallt að verkum að ekki verði unnt að þekkja hann, t.d. þar sem andlitsdrættir hans að öðru leyti, önnur líkamleg einkenni eða klæðnaður geri það kleift. Í slíkum tilvikum er um að ræða vinnslu persónuupplýsinga og gilda þá að öllu leyti sömu reglur og ef ekki væri sett svart strik yfir augu mannsins.
Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar verður að auki að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 9. gr. sömu laga. Upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna.
Það ákvæði 8. gr., sem hér gæti helst átt við, er 7. tölul. 1. mgr., en þar segir að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Ekki verður séð að í 9. gr. sé að finna ákvæði sem komi til greina sem heimild til birtingar slíkra upplýsinga sem hér um ræðir á Netinu.
Til þess ber hins vegar að líta að við túlkun á framangreindum ákvæðum verður að líta til 5. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir m.a. að frá ákvæðum laganna megi, að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar, víkja í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þá segir að þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gildi aðeins tiltekin ákvæði laganna, en ákvæði 8. og 9. gr. eru ekki þar á meðal.
Ákvæðum 5. gr. er ætlað að koma í veg fyrir að lögum nr. 77/2000 verði beitt á þann veg að rétturinn til tjáningarfrelsis, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, víki fyrir einkalífsákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar þegar mál eru þannig vaxin að tjáningarfrelsið ætti að ganga framar. Það hvernig þeim ber að beita fer eftir atvikum í hverju, einstöku tilviki. Ávallt verður þá að virða grunnreglur 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 þar sem mælt er fyrir um að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga; og að upplýsingarnar séu áreiðanlegar, en upplýsingar sem séu óáreiðanlegar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta.
Einnig verður að líta til þess að í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er að finna ákvæði sem bannar að í ákveðnum tilvikum séu birtar upplýsingar varðandi dómsmeðferð slíkra mála þegar þinghaldi hefur verið lokað, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Ákvæði 2. mgr. 11. gr. getur m.a. átt við þegar ákært hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Ákvæðið er svohljóðandi.
"Óheimilt er að skýra frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Þótt þinghald sé háð í heyranda hljóði getur dómari bannað að skýrt verði frá því sem gerist þar ef ætla má að frásögn geti leitt til sakarspjalla eða valdið vandamönnum sakbornings, brotaþola eða öðrum sem ekki eru fyrir sökum hafðir þjáningum eða verulegum óþægindum. Ákvörðun um slíkt bann má vera tímabundin. Skal dómari skrá hana í þingbók og kynna hana viðstöddum."
Þegar framangreint ákvæði á við verður að ætla að birting slíkra mynda, sem hér um ræðir, geti ekki átt sér stoð í 5. gr. laga nr. 77/2000. Ella getur hins vegar svo verið og eins og fyrr segir verður að meta eftir atvikum hverju sinni hvort svo sé.