27. febrúar 2006
Uppfletting í sjúkraskrá ólögmæt
27. febrúar 2006
A kvartaði yfir því að læknirinn B hefði farið í sjúkraskrá hans án heimildar í tengslum við álitsgerð sem B vann að fyrir tryggingafélag.
A kvartaði yfir því að læknirinn B hefði farið í sjúkraskrá hans án heimildar í tengslum við álitsgerð sem B vann að fyrir tryggingafélag.
B vísaði til þess að lögmaður A, I, hefði áritað beiðni tryggingafélagsins um álitsgerð og að með beiðninni hefði fylgt umboð A til I, sem m.a. heimilaði I að afla upplýsinga úr sjúkraskrá A. Því er ljóst að B taldi sig hafa haft samþykki þar til bærs aðila, þ.e. I, til aðgangs að sjúkraskránni.
Áritun I var svohljóðandi: "Heimild til B læknis til öflunar gagna vegna greinargerðar þessarar. Eu. I [sign]."
Persónuvernd vísaði til þess að með samþykki í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 væri átt við sérstaka, ótvíræða yfirlýsingu sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð og um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt. Slíkt samþykki væri persónubundið og því ljóst að enginn gæti gefið samþykki fyrir annars manns hönd nema hafa til þess sérstaka heimild, t.d. skýrt og afmarkað umboð.
Ekki var tekin afstaða til þess hvort I hafi verið bær til þess að veita slíkt samþykki. Hins vegar var ekki talið að áritun hans á álitsbeiðnina hafi verið nægilega ótvíræð til að fullnægja kröfum laga um samþykki fyrir aðgangi að svo viðkvæmum upplýsingum sem finna má í sjúkraskrá.
Þá var litið til þess að þrátt fyrir að B hafi unnið álitsgerðina utan sjúkrahússins sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur lægi ekki annað fyrir en að hann hafi notað aðgang sem hann hefur að sjúkraskrám sjúkrahússins vegna starfs síns þar. Ekki lá fyrir að hann hefði óskað eftir heimild lækningaforstjóra.
Tekið var fram að tryggingafélög gætu haft lögvarða hagsmuni af því að fá tilteknar heilsufarsupplýsingar um vátryggða einstaklinga, til þess að geta metið bótaskyldu sína, og að upplýsingaskylda þar að lútandi gæti hvílt á vátryggðum samkvæmt lögum. Tryggingafélög og þeir sem starfa á þeirra vegum yrðu hins vegar að gæta þess að fara réttar leiðir að þessu marki, þ.e. óska eftir upplýstu samþykki frá hinum skráða.
Með vísan til þessa taldi Persónuvernd að B hefði verið óheimilt að fara í sjúkraskrá A umrætt sinn.
Niðurstaðan er birt í heild sinni hér.