Schengen - gagnagrunnar
Schengen-samstarfið er samstarf 26 ríkja í Evrópu og miðar að því að tryggja frjálsa för fólks innan Schengen-svæðisins. Aðildarríkin eru Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.
Samstarfið lýtur að afnámi persónubundins eftirlits á landamærum milli Schengen-landanna, svokallaðra „innri landamæra“. Slíkt kallar þó á mótvægisaðgerðir til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu, sem felast einkum í samvinnu evrópskra löggæsluaðila. Í því skyni hafa verið sett upp upplýsingakerfi þar sem haldið er utan um þær upplýsingar sem unnið er með í samstarfi landanna.
Hvert ríki ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem það skráir í upplýsingakerfin.
Persónuvernd hefur eftirlit með því að reglum Schengen-samstarfsins um meðferð persónuupplýsinga sé fylgt á Íslandi.
Skráðir einstaklingar eiga rétt á að fá vitneskju um upplýsingar um sig í kerfunum. Sá réttur er grundvöllur þess að einstaklingar geti fengið rangar upplýsingar um sig leiðréttar og ranglega skráðar upplýsingar fjarlægðar. Sá réttur er einnig tryggður með Schengen-regluverkinu.
Persónuverndarstofnanir Schengen-ríkjanna veita upplýsingar um hvernig haga á beiðni um aðgang í hverju landi fyrir sig. Verði ábyrgðaraðilar ekki við upplýsingabeiðni er hægt að beina kvörtun til persónuverndarstofnunar í því landi, hér Persónuverndar.
Gagnagrunnarnir
SIS-II (Löggæslu og landamælraeftirlit)
Á Íslandi er það embætti ríkislögreglustjóra sem veitir upplýsingar um skráningar í Schengen-upplýsingakerfið.
VIS (Vegabréfsáritanir)
Á Íslandi er það Útlendingastofnun sem veitir upplýsingar um skráningar í VIS-kerfið.
Eurodac (Fingrafaragagnagrunnurinn)
Á Íslandi er það embætti ríkislögreglustjóra sem veitir upplýsingar um skráningar í Eurodac.
Útgefið efni
Gefinn hefur verið út bæklingur með helstu upplýsingum um gagnagrunnana (enska)