Vinnslusveinarnir sex
15. desember 2025
Í persónuverndarfjöllunum búa sex vinnslusveinar. Þeir passa hver um sig upp á að persónuupplýsingar séu aðeins notaðar þegar góð ástæða er til þess. Enginn þeirra má vinna nema hann hafi sitt eigið leyfi í lagi – og saman halda þeir utan um það sem má og má ekki gera við upplýsingar um fólk.

Kynnumst þeim:
1. Samþykkisstaur
Samþykkisstaur skráir aðeins niður skóstærðina þína ef þú hefur gefið honum skýrt samþykki til þess. Hann passar að þú vitir nákvæmlega af hverju upplýsingarnar eru skráðar og minnir þig reglulega á að þú megir draga samþykkið til baka hvenær sem er, án þess að fá skammir.
2. Samningsgaur
Samningsgaur er duglegur að gera díla. Hann semur við börnin um að setja í skóinn þeirra ef þau eru dugleg, og til að geta staðið við samninginn þarf hann að halda lista yfir hver þeirra hafa staðið sig. Hann safnar því persónuupplýsingum eingöngu til að efna samninginn, en ekki til að nota þær í eitthvað allt annað seinna.
3. Lagakrókur
Lagakrókur vill helst birta lista yfir þau börn sem eru þæg og þau sem eru óþæg. En hann er ábyrgðarfullur og veit að svona lagað er bara í lagi ef lög segja það skýrt. Ef engin lagaskylda er til staðar, þá lætur hann hugmyndina eiga sig – jafnvel þótt hún sé „sniðug“.
4. Brýnnahagsmunaskellir
Brýnnahagsmunaskellir lætur ekkert stoppa sig þegar líf eða heilsa er í húfi. Hann býr til lista yfir þá sem fá annars engar gjafir um jólin – því enginn á að sitja eftir án gjafar ef það er hægt að koma í veg fyrir það. Hann vinnur aðeins þegar nauðsyn krefur og aðeins á meðan þörf er á.
5. Almannahagsmunaþefur
Almannahagsmunaþefur er með fínt nef fyrir því sem þjónar almannahagsmunum eða opinberu hlutverki. Hann vinnur upplýsingar þegar það þarf til að halda samfélaginu gangandi; til dæmis í skólum, heilbrigðiskerfinu eða annarri opinberri þjónustu. Ekki bara af því að það væri „þægilegt“!
6. Lögmætrahagsmunasníkir
Lögmætrahagsmunasníkir er alltaf að vega og meta. Hann vill gjarnan vinna persónuupplýsingar vegna lögmætra hagsmuna, en aðeins ef þeir vega þyngra en réttindi og friðhelgi fólksins sem upplýsingarnar varða. Ef fólk verður fyrir óþarfa ónæði eða óréttlæti fær hann ekki að sníkja lengur.
Vinnslusveinarnir sex minna okkur á eitt einfalt en mikilvægt atriði: Ekki má vinna persónuupplýsingar nema það sé góð og gild ástæða fyrir því. Það dugar ekki að „það hafi alltaf verið gert svona“ eða að það sé hentugt í augnablikinu. Alltaf þarf að standa vörð um réttindi fólks, og vita hvaða vinnslusveinn er að vinna verkið.
Ef þú ert í vafa um hvaða vinnsluheimild á við, eða hvort vinnslan sé yfirhöfuð í lagi, er skynsamlegt að staldra við, spyrja spurninga og kynna sér reglurnar nánar.
Persónuvernd óskar landsmönnum gleðilegra jóla.
