Úttektir á vinnslu persónuupplýsinga í upplýsingakerfunum Völu og Karellen
2. apríl 2025
Persónuvernd lauk nýverið úttektum á vinnslu persónuupplýsinga í upplýsingakerfunum Völu, sem rekið var af Advania Íslandi ehf., og Karellen, sem rekið er af InfoMentor ehf.

Úttektirnar voru boðaðar í kjölfar frumathugana Persónuverndar á vinnslu persónuupplýsinga barna í fimm hugbúnaðarlausnum.
Markmið úttektanna var að kanna hvort upplýsingaöryggi í Völu og Karellen væri tryggt í samræmi við persónuverndarlöggjöfina, að því er varðaði aðgang óviðkomandi að persónuupplýsingum í kerfunum.
Rannsókn Persónuverndar leiddi ekki annað í ljós en að Advania og InfoMentor hefðu viðhaft viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir í samræmi við áskilnað persónuverndarlöggjafarinnar, miðað við þá öryggisáhættu sem var til skoðunar. Persónuvernd taldi þó tilefni til að vekja athygli á og leiðbeina fyrirtækjunum um tiltekin atriði sem voru að mati stofnunarinnar til þess fallin að tryggja enn betur upplýsingaöryggi í kerfunum.