Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Staðlaðir skilmálar í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa

3. maí 2021

Merki - Persónuvernd

Persónuvernd hefur nú gefið út staðlaða skilmála í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa. Drög að þeim voru birt til umsagnar 8. október 2020 og hafa innsendar umsagnir verið birtar á vefsíðu Persónuverndar. Hér birtast nú skilmálarnir, ásamt greinargerð með þeim þar sem farið er yfir viðbrögð stofnunarinnar við einstökum athugasemdum og breytingar á einstökum ákvæðum í ljósi þeirra. Samhliða útgáfu skilmálanna hefur Persónuvernd veitt fjárhagsupplýsingastofunni Creditinfo Lánstrausti hf., kt. 710197-2109, nýtt starfsleyfi, dags. í dag, sem að öllu leyti er samhljóða skilmálunum. Leyfið tekur gildi 10. maí nk. og hefur gildistíma til 31. desember 2022. Fram að gildistöku þessa nýja leyfis fer um vinnslu fjárhagsupplýsinga og gerð skýrslna um lánshæfi hjá Creditinfo Lánstrausti hf. samkvæmt eldri leyfisskilmálum.

Staðlaðir skilmálar í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa.

Greinargerð með skilmálunum.

Uppfært 11. júní 2021:

Hinn 10. júní 2021 var afgreidd ósk Creditinfo Lánstrausts hf. um breytingar á nýju starfsleyfi, svo og frestun á gildistöku þess. Breyting var gerð á orðalagi 2. mgr. ákvæðis 5.3 en ekki er þar um efnisbreytingu að ræða. Að auki var gerð breyting á 2. mgr. liðar 5.1.4 í ljósi athugasemda um að orðalag þar kallaði á óhóflegan fjölda bréfpóstsendinga. Sömu breytingar og hér greinir hafa verið gerðar á stöðluðum skilmálum í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa. Jafnframt hefur verið fallist á að viss ákvæði nýs starfsleyfis kalli á það mikla vinna til aðlögunar að nokkur frestur í því skyni eigi rétt á sér. Frestur til aðlögunar að þeim ákvæðum, þ.e. 2. mgr. ákvæðis 5.3, 2.–4. málsl. liðar 5.1.4 og 3. gr., hefur verið veittur til 1. júlí nk.

Afgreiðsla Persónuverndar 10. júní 2021.

Uppfært 8. mars 2023

Hinn 1. mars 2023 var Creditinfo Lánstrausti hf. veitt nýtt starfsleyfi sem er samhljóða stöðluðu skilmálunum eins og þeir voru birtir 3. maí 2021 og uppfærðir 10. júní s.á. að öðru leyti en því að nýjum 9. tölul. var bætt við lið 2.2.1 í leyfinu, ásamt því að númer næsta töluliðar breyttist til samræmis.

Stöðluðu skilmálunum hefur nú verið breytt með sama hætti. Rökstuðning fyrir breytingunni er að finna í fylgibréfi með nýju starfsleyfi.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820