Réttindi barna í stafrænu umhverfi - málþing 29. apríl
26. apríl 2022
Nýjar leiðbeiningar fyrir foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi sem varða netið, samfélagsmiðla og börn verða kynntar á málþinginu <em>Réttindi barna í stafrænu umhverfi</em> á Grand hótel föstudaginn 29. apríl milli kl. 08:30 og 10:15. Leiðbeiningarnar eru samstarfsverkefni umboðsmanns barna, Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, mun opna málþingið með því að kynna leiðbeiningarnar til sögunnar. Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd, fjallar þá um niðurstöður víðtækrar könnunar um börn og netmiðla, Unnur Sif Hjartardóttir, lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi, heldur erindi um friðhelgi einkalífs barna í nútímasamfélagi og Steinunn Birna Magnúsdóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd, fer yfir hvernig tryggja má persónuvernd barna. Að því loknu munu fara fram pallborðsumræður með nokkrum fulltrúum úr ráðgjafahópi umboðsmanns barna.
Réttur barna til einkalífs
Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimilis og utan. Þessi réttur er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögunum. Persónuupplýsingar barna njóta jafnframt sérstakrar verndar, þar sem þau eru almennt síður meðvituð um áhættu og afleiðingar í tengslum við vinnslu slíkra upplýsinga sem og eigin réttindi.
Stafræn tilvera kallar á stafrænt læsi
Á Íslandi hefur aukin áhersla verið lögð á að efla stafrænt læsi barna sem endurspeglast m.a. í menntastefnu fyrir árin 2021-2030, þar sem lögð er áhersla á að efla framtíðarhæfni í stafrænni tilveru nemenda. Það felur í sér að nemendur þurfa að geta gert sér grein fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem felast í stafrænni tilveru og ábyrgri nethegðun, sem kallar á þjálfun þeirra í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi, ásamt þekkingu á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga.
Nauðsynleg vernd barna í stafrænu umhverfi
Þó svo að foreldrar eigi rétt á að taka ákvarðanir sem varða hag barna og daglegt líf þeirra þýðir það ekki að foreldrar eigi ótakmarkaðan rétt á því að birta ljósmyndir og aðrar upplýsingar um eigin börn á samfélagsmiðlum. Starfsmenn skóla, frístundaheimila, íþróttafélaga, tónlistarskóla og aðrir sem vinna með börnum þurfa að vera meðvitaðir um og búa yfir þekkingu á réttindum barna, m.a. til persónuverndar, þannig að börn njóti nauðsynlegrar verndar til að geta þroskast í hinu stafræna umhverfi á öruggan hátt.
Fyrsta kynslóðin sem frá fæðingu hefur verið skrásett rafrænt í gögnum fyrirtækja
Einnig er nauðsynlegt að hafa í huga þá áhættu sem felst í því að safna upplýsingum um einstaklinga yfir langan tíma en börn í dag eru fyrsta kynslóðin sem frá fæðingu hefur verið skrásett rafrænt í gögnum fyrirtækja. Það getur haft mótandi áhrif á sjálfsmynd barna hvaða upplýsingar eru til um þau á netinu og því ætti að halda þeim upplýsingum í lágmarki. Þá er einnig mikilvægt að í starfsemi með börnum sé gætt að öðrum réttindum barna og hugað að velferð þeirra, t.d. hvað varðar aldurstakmörk á tölvuleikjum og stafrænum lausnum sem notaðar eru, notkun samfélagsmiðla, aldurstakmörk á myndefni sem sýnt er o.fl.