Nýtt komu- og brottfararkerfi tekið í notkun
15. október 2025
Innleiðing er hafin á nýju komu- og brottfararkerfi Schengen- svæðisins (e. EU Entry Exit System, EES-kerfið). Áætlað er að kerfið verði að fullu tekið í notkun á ytri landamærum Schengen-svæðisins í lok mars 2026.

Markmið EES-kerfisins er að auka skilvirkni landamæravörslu með samræmdri skráningu á för fólks yfir landamæri og þannig fá betri yfirsýn yfir dvöl einstaklinga frá ríkjum utan Schengen-svæðisins.
Kerfið skráir hjá sér ýmis persónugreinanleg gögn svo sem nafn, fæðingardag og fæðingarstað. Að auki skráir kerfið allar komur og brottfarir ásamt ákveðnum lífauðkennum (e. biometric data): andlitsmynd og fingraför. Í ljósi þess að um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða er mikilvægt að tryggja að einstaklingar geti nýtt sér réttindi sín og að vinnsla persónuupplýsinga sé undir eftirliti.
Reglugerð ESB nr. 2017/2226, sem kerfið er byggt gerir kröfu um að ábyrgðaraðili upplýsi ferðamenn um réttindi sín varðandi vinnslu persónuupplýsinga þeirra og hvernig þeir geti nýtt sér þau. Ábyrgðaraðilar sem vinna úr skráðum upplýsingum verða því að tryggja að hinir skráðu geti meðal annars auðveldlega óskað eftir aðgangi að persónuupplýsingum sem varða þá sjálfa, fengið óáreiðanlegar persónuupplýsingar leiðréttar og eftir atvikum eytt.
Í samræmi við persónuverndarlöggjöfina og ákvæði reglugerðar ESB nr. 2017/2226 ber Persónuvernd að viðhafa eftirliti með vinnslunni.
Nánar má lesa um kerfið og aðkomu Persónuverndar í frétt EDPB og frétt EDPS.
