Nýjar reglur um rafræna vöktun
27. janúar 2023
Persónuvernd hefur gefið út nýjar reglur um rafræna vöktun ásamt fyrirmyndum að merkingum og fræðslu þar að lútandi. Einnig hafa verið gefnar út leiðbeiningar um meðferð tölvupósts, skráasvæða og eftirlit með netnotkun.
Persónuvernd hefur gefið út nýjar reglur um rafræna vöktun, nr. 50/2023. Samhliða gildistöku reglnanna falla úr gildi eldri reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun.
Í nýjum reglum um rafræna vöktun hefur orðið sú breyting frá þeim eldri að sérákvæði um tölvupóst og netnotkun hefur verið fellt út. Þess í stað hafa verið útbúnar ítarlegar leiðbeiningar um meðferð tölvupósts, skráasvæða og eftirlit með netnotkun. Leiðbeiningarnar eru byggðar á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og almennu persónuverndarreglugerðinni, þ.e. reglugerð (ESB) 2016/679.
Persónuvernd hefur jafnframt útbúið og birt fyrirmyndir að merkingum um rafræna vöktun og fyrirmynd að fræðslu sem veita þarf hinum skráðu þegar rafræn vöktun er viðhöfð. Fyrirmyndir að merkingum eru í samræmi við leiðbeiningar Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB), nr. 3/2019. Fyrirmyndirnar er gerðar með það að leiðarljósi að aðstoða ábyrgðaraðila við að fylgja kröfum löggjafarinnar um nauðsynlega fræðslu þegar rafræn vöktun er viðhöfð.
Þá má finna ítarlegar upplýsingar um ýmislegt tengt rafrænni vöktun, bæði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir, undir Spurt og svarað á vefsíðu Persónuverndar.