Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Notkun Google Analytics á íslenskum vefsíðum

12. apríl 2022

Merki - Persónuvernd

Í ljósi nýlegra niðurstaðna frá austurrísku og frönsku persónuverndarstofnununum, þess efnis að að við núverandi aðstæður sé austurrískum og frönskum fyrirtækjum óheimilt að nota greiningarvél Google (e. Google Analytics) á vefsíðum sínum, vill Persónuvernd árétta að hún hefur enn sem komið er ekki tekið formlega afstöðu til lögmætis notkunar Google Analytics á íslenskum vefsíðum.

Hins vegar eru niðurstöður evrópskra systurstofnana Persónuverndar byggðar á almennu persónuverndarreglugerðinni, þ.e. reglugerð (ESB) 2016/679 (GDPR), sem hefur jafnframt lagagildi hér á landi. Þessar niðurstöður geta því gefið vísbendingu um niðurstöður í sambærilegum málum hérlendis.

Fyrirtækjum, stjórnvöldum og öðrum sem nýta fyrrgreindar lausnir er því sérstaklega bent á að kynna sér umræddar niðurstöður vel, enda er það skylda allra ábyrgðaraðila að tryggja að öll vinnsla persónuupplýsinga á þeirra vegum samrýmist persónuverndarlöggjöfinni.

Þau mál sem austurríska og franska persónuverndarstofnunin höfðu til meðferðar voru kvartanir samtakanna NOYB (None Of Your Business), en samtökin lögðu fram 101 kvörtun í 30 ríkjum Evrópu á árinu 2020 yfir flutningi persónuupplýsinga til Bandaríkjanna, annars vegar í gegnum notkun Google Analytics og hins vegar Facebook Connect. Tvær þessara kvartana voru lagðar fram á Íslandi og eru þær nú til rannsóknar, en önnur þeirra varðar Google Analytics. Formlegrar afstöðu Persónuverndar um notkun þessara tveggja lausna er því að vænta.

Nánari upplýsingar um niðurstöðu austurrísku persónuverndarstofnunarinnar

Nánari upplýsingar um niðurstöðu frönsku persónuverndarstofnunarinnar

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820