Miðlun forsætisráðuneytisins á persónuupplýsingum
17. október 2025
Stjórn Persónuverndar hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir miðlun forsætisráðuneytisins á persónuupplýsingum kvartanda til þáverandi mennta- og barnamálaráðherra.

Í málinu lá fyrir að kvartandi hafði óskað eftir fundi með forsætisráðherra. Í beiðni sinni til forsætisráðuneytisins tók kvartandi fram að erindið varðaði þáverandi mennta- og barnamálaráðherra og að það væri í góðu lagi að viðkomandi ráðherra sæti fundinn líka ef forsætisráðherra óskaði þess. Af fyrirliggjandi gögnum var ekki annað ráðið en að forsætisráðuneytið hefði miðlað persónuupplýsingum kvartanda til mennta- og barnamálaráðherra í þeim tilgangi að undirbúa svar við fundarbeiðni kvartanda og meta réttan farveg málsins.
Var það niðurstaða Persónuverndar að miðlun forsætisráðuneytisins á upplýsingum um kvartanda til mennta- og barnamálaráðherra umrætt sinn hefði verið nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem forsætisráðuneytið fer með. Vinnsla persónuupplýsinganna var því heimil á grundvelli 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, en að mati Persónuverndar verður að játa stjórnvöldum ákveðið svigrúm til að meta hvaða vinnsla er nauðsynleg til að framfylgja lögbundnum verkefnum sínum. Einnig var það niðurstaða Persónuverndar að miðlun forsætisráðuneytisins á persónuupplýsingum kvartanda hefði samrýmst meginreglum 1. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. a- og c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.
