Meta sektað um 17 milljónir evra
22. mars 2022
Þann 15. mars 2022 lagði írska persónuverndarstofnunin (DPC) sekt á Meta Platforms Ireland Limited (áður Facebook Ireland Limited) („Meta Platforms“) að fjárhæð 17 milljónir evra.
Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að tólf tilkynningar um brot á persónuverndarlögum bárust stofnuninni á sex mánaða tímabili, frá 7. júní 2018 til 4. desember 2018. Stofnað var til frumkvæðisathugunar á því hvort og hvernig Meta Platforms uppfyllti kröfur almennu persónuverndarreglugerðarinnar (GDPR) við vinnslu persónuupplýsinga í þeim málum sem tilkynnt höfðu verið. Rannsóknin leiddi í ljós að Meta Platforms hafi brotið í bága við meginreglur persónuverndarlöggjafarinnar sem og ákvæði hennar er snúa að öryggi persónuupplýsinga. Þannig taldi stofnunin að Meta hefði ekki innleitt viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir sem hefðu gert fyrirtækinu kleift að sýna fram á hvaða öryggisráðstafanir hefðu verið innleiddar í raun hvað varðaði þessa 12 öryggisbresti.
Í ljósi þess að umrædd vinnsla persónuupplýsinga fór yfir landamæri þurfti DPC að virkja samræmingarkerfi almennu persónuverndarreglugerðarinnar skv. 60. gr. hennar og náðist samstaða um lok málsins, þrátt fyrir andmæli tveggja systur stofnana írsku stofnunarinnar á Evrópska efnahagssvæðinu.