LinkedIn sektað um 310 milljónir evra fyrir persónuverndarbrot
25. október 2024
Írska persónuverndarstofnunin (DPC) hefur lagt 310 milljóna evra sekt á samfélagsmiðilinn LinkedIn fyrir brot á persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins, GDPR. Samkvæmt tilkynningu DPC kom sektin í kjölfar rannsóknar á meðferð LinkedIn á persónuupplýsingum notenda, sérstaklega með tilliti til gagnavinnslu tengdri markaðssetningu, þar á meðal við gerð einstaklingsmiðaðra auglýsinga, og gagnaskipti fyrirtækisins við þriðju aðila. Rannsóknin leiddi í ljós að söfnun og notkun LinkedIn á gögnum notenda hefði ekki verið í samræmi við persónuverndarreglugerðina sem á að tryggja vernd persónuupplýsinga íbúa á evrópska efnahagssvæðinu.