Leiðbeiningar Persónuverndar um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2024
6. nóvember 2024
Persónuvernd hefur gefið út leiðbeiningar um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir komandi kosningar til Alþingis. Þegar stjórnmálasamtök nota persónuupplýsingar kjósenda í markaðssetningu, ekki síst á samfélagsmiðlum, bera þau ábyrgð á að sú vinnsla persónuupplýsinga samrýmist persónuverndarlögum. Með hliðsjón af þeim kröfum sem persónuverndarlöggjöfin gerir beinir Persónuvernd leiðbeiningunum til stjórnmálasamtaka.
Leiðbeiningar Persónuverndar til stjórnmálasamtaka í aðdraganda alþingiskosninga
Þegar stjórnmálasamtök nota persónuupplýsingar kjósenda í markaðssetningu, ekki síst á samfélagsmiðlum, bera þau ábyrgð á að sú vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679. Með hliðsjón af þeim kröfum sem persónuverndarlöggjöfin gerir beinir Persónuvernd eftirfarandi leiðbeiningum til samtakanna:
Vegna notkunar þeirra á persónuupplýsingum kjósenda í þágu markaðssetningar (svo sem með útsendingu auglýsinga- og tölvupósts, símhringingum og hliðstæðum aðferðum), að:
Ganga úr skugga um og geta sýnt fram á að heimilt sé að nota persónuupplýsingar kjósenda, t.d. nöfn, símanúmer, heimilisföng og netföng, í þessum tilgangi.
Öll skilaboð, hvort sem þau eru send með tölvupósti eða öðrum hætti, beri skýrt með sér hvaðan þau koma og gefi raunverulegan kost á einfaldri leið fyrir kjósendur til að andmæla vinnslunni.
Andmæli kjósenda við frekari markpósti eða -símtölum verði virt, óháð því hvort viðkomandi sé skráður á bannskrá Þjóðskrár.
Vegna notkunar þeirra á samfélagsmiðlum, að þau:
Merki auglýsingar þannig að fram komi hver kosti þær.
Merki auglýsingar þannig að skýrt sé að þær séu vegna kosninga.
Geri auglýsingar svo úr garði að notendur samfélagsmiðla séu leiddir með einföldum hætti inn á vefsíður stjórnmálasamtaka þar sem verði að finna aðgengilega og skýra fræðslu um hvaða persónuupplýsingar unnið er með, hvernig þær eru notaðar og í hvaða tilgangi. Einnig verði þar að finna leiðbeiningar um hvernig notendur samfélagsmiðla geta leitað til stjórnmálasamtaka um nánari skýringar og hvernig þeir geta nýtt andmælarétt sinn.
Noti ekki aðferðirnar „Eigin markhópar“ (e. custom audiences) og „Líkindamarkhópar“ (e. lookalike audiences) á Facebook – en noti fremur almenna markhópa, svo sem á grundvelli staðsetningar, kyns og aldurs.
Noti ekki afleiddar persónuupplýsingar, þ.e. þær sem eru ráðnar af virkni og hegðun notenda á samfélagsmiðlum, svo sem því sem notendur líka við, deila eða hafa áhuga á.
Noti ekki persónusnið til að hvetja einstaklinga til að nýta ekki kosningarétt sinn.
Að lokum bendir Persónuvernd á álit hennar nr. 2022010107 um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2021, svo og fyrra álit um sama efni nr. 2020010116 , en þar er því lýst hvernig stjórnmálasamtök þurfa að bera sig að við notkun slíkra miðla. Þá er áminningu vegna komandi kosninga að finna í niðurlagi fyrrnefnda álitsins.