Í aðdraganda forsetakosninga 2024
6. mars 2024
Það hefur ekki farið fram hjá landsmönnum að forsetakosningar munu fara fram á Íslandi 1. júní næstkomandi. Af því tilefni vill Persónuvernd minna alla frambjóðendur á að huga sérstaklega að því þegar persónuupplýsingar eru notaðar í markaðssetningu ekki síst á samfélagsmiðlum.
Mikilvægt er að við vinnslu persónuupplýsinga sé farið að kröfum til vinnslu þeirra þar á meðal að vinnsluheimild sé til staðar og að meginreglum um vinnslu persónuupplýsinga sé fylgt, svo sem um fræðslu, sanngirni, gagnsæi og meðalhóf. Þá minnir Persónuvernd á að þegar persónuupplýsingar eru unnar í þágu beinnar markaðssetningar á skráður einstaklingur rétt til að andmæla slíkri vinnslu, m.a. gerð persónusniðs.
Árið 2020 gaf Persónuvernd út álit nr. 2020010116 um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar Alþingis. Þar eru meðal annars settar fram leiðbeiningar og tillögur um notkun persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum í tengslum við kosningar til að tryggja að farið sé að persónuverndarlögum.