Google og Facebook sektuð vegna vefkaka
7. janúar 2022
Franska persónuverndarstofnunin (CNIL) hefur sektað Google um samtals 150 milljónir evra og Facebook um 60 milljónir evra fyrir að brjóta persónuverndarlög þar í landi.
Rannsókn CNIL á vefsíðunum facebook.com, google.fr og youtube.com leiddi í ljós að notendur Internetsins geri þær kröfur að geta komist inn á vefsíður hratt og örugglega, en sú staðreynd að þeir geti ekki hafnað vefkökum með jafnauðveldum hætti og að samþykkja þær hafi áhrif á frelsi þeirra til að velja hvort vefkökum sé komið fyrir á búnaði þeirra, þ.e. einstaklingar ýti á samþykki einfaldlega til að komast inn á viðkomandi síðu.
Þetta taldi CNIL að væri í andstöðu við ákvæði 82. gr. frönsku persónuverndarlaganna sem fjalla um vefkökur. Þá var lagt fyrir fyrirtækin að breyta samþykkisfyrirkomulagi sínu þannig að jafnauðvelt væri fyrir notendur að hafna vefkökum og að samþykkja þær. Fyrirtækin eiga yfir höfði sér dagssektir upp á 100.000 evrur ef ekki verður farið að fyrirmælunum þriggja mánaða.