Gervigreind og kröfur persónuverndarlaga
25. nóvember 2025
Notkun gervigreindarlausna hefur aukist til muna og er sífellt að verða stærri hluti af lífi og störfum margra. Af því tilefni vill Persónuvernd árétta nauðsyn þess að huga að persónuverndarlöggjöfinni við innleiðingu og notkun á gervigreindarlausnum í hvers kyns starfsemi.

Ábyrgðaraðilar þurfa að huga að mörgu við innleiðingu allra hugbúnaðarlausna, þar á meðal gervigreindalausna. Við innleiðingu þarf m.a. að huga að kröfum persónuverndarlöggjafarinnar um framkvæmd mats á áhrifum á persónuvernd ásamt áhættu- og öryggismati. Einnig getur t.d. þurft að uppfæra persónuverndaryfirlýsingar og huga vel að upplýsingagjöf til hins skráða.
Evrópska persónuverndarráðið gaf út álit um notkun persónuupplýsinga við þróun og notkun gervigreindarlíkana í desember 2024 en þar er m.a. að finna leiðbeiningar um lögmæta hagsmuni sem vinnsluheimild og umfjöllun um hvenær gervigreindarlíkön geta talist ópersónugreinanleg.
Sem stendur er unnið að ýmiss konar breytingum á löggjöf Evrópusambandsins varðandi stafræna tækni, þar á meðal persónuverndarlöggjöfinni. Sú vinna getur haft áhrif á þær reglur sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga við notkun gervigreindar. Persónuvernd mun greina nánar frá þessum breytingum þegar þær liggja fyrir. Nánar um þá vinnu má sjá á vef framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
