Fundur EDPB í janúar
20. janúar 2022
59. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn 19. janúar sl.
Helstu atriði sem voru rædd og samþykkt á fundinum voru:
Leiðbeiningar um aðgangsrétt (e. Guidelines on the Right of Access). Þær miða að því að greina hinar ýmsu hliðar aðgangsréttarins og veita nákvæmari leiðbeiningar um hvernig hægt sé að bregðast við mismunandi aðstæðum. Farið er yfir umfang réttarins og hvaða upplýsingar ábyrgðaraðili þarf að veita hinum skráða. Mismunandi form aðgangsbeiðna eru kynnt í leiðbeiningunum sem og helstu leiðir til að veita aðgang auk þess sem farið er yfir hvað eru augljóslega tilefnislausar eða óhóflegar beiðnir um aðgang. Þegar leiðbeiningarnar hafa verið birtar munu þær fara í samráðsferli.
Svar EDPB við bréfi nokkurra franskra samtaka varðandi samræmda túlkun á samþykki fyrir vefkökur (e. cookie consent). Í bréfinu ítrekar EDPB að það sé skuldbundið til að tryggja samræmda beitingu reglna um persónuvernd á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í því samhengi hefur EDPB nýlega sett á laggirnar verkefnahóp um kökuborða (e. Taskforce on cookie banners) til að samræma viðbrögð við kvörtunum þar að lútandi. Jafnframt hefur EDPB uppfært leiðbeiningar um samþykki (e. Guidelines on consent) til að tryggja að nálgun á skilyrðum til samþykkis sé samræmd.