Fundur EDPB í desember
22. desember 2021
58. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn 14. desember sl.
Helstu atriði sem voru rædd og samþykkt á fundinum voru:
Yfirlýsing EDPB um samvinnu innan ráðsins vegna vinnu við leiðbeiningar.
Svör EDPB og einstakra persónuverndarstofnana sem hluti af endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar á löggæslutilskipun Evrópusambandsins(e. Law Enforcement Directive eða LED). Að mati EDPB er of snemmt að segja til um virkni tilskipunarinnar þar sem síðustu fjögur ár hafi fyrst og fremst farið í innleiðingu á tilskipuninni. EDPB mun áfram vinna að útgáfu leiðbeininga hvað varðar túlkun á ákvæðum tilskipunarinnar sem og að veita sjálfstætt mat á jafngildisákvörðunum (e. adequacy decisions) framkvæmdastjórnar ESB, hvað varðar flutning til þriðju ríkja á persónuupplýsingum í löggæslutilgangi. Til að löggæslutilskipunin nái tilgangi sínum leggur EDPB áherslu á að aðildarríki tryggi að fjármögnun persónuverndarstofnana sé í samræmi við umfang vinnu þeirra.
Verkefnaáætlun fyrir stuðningshóps sérfræðinga innan EDPB (e. Support Pool of Experts eða SPE). Tilgangur SPE er að veita persónuverndarstofnunum innan EDPB stuðning í formi sérfræðiþekkingar við rannsókn mála. Þá er hópnum ætlað að efla samvinnu og samstöðu milli meðlima EDPB með því að deila sérfræðiþekkingu.
Svar til þingmanns Evrópuþingsins varðandi njósnaforritið Pegasus.
Lokaútgáfa leiðbeininga um raunhæf dæmi um öryggisbresti.