Fundur EDPB í apríl
11. apríl 2022
62. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn 7. apríl sl.
Helstu atriði sem voru rædd og samþykkt á fundinum voru:
Yfirlýsing um tilkynningu um nýtt samkomulag um flutning persónuupplýsinga milli ESB og Bandaríkjanna (e. Trans-Atlantic Data Privacy Framework). EDPB fagnar því að Bandaríkin hafi skuldbundið sig til að grípa til áður óþekktra ráðstafana til að vernda friðhelgi einkalífs við flutning persónuupplýsinga frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES) til Bandaríkjanna. Telur ráðið það skref í rétta átt. Tekið er fram að þessi tilkynning ESB og Bandaríkjanna er ekki lagalega bindandi enn sem komið er og því þarf áfram að grípa til viðeigandi verndarráðstafana varðandi flutning persónuupplýsinga í samræmi við niðurstöður Evrópudómstólsins(CJEU). Sérstaklega þarf að líta til niðurstöðu í dómstólsins Schrems II frá 16. júlí 2020. EDPB mun fylgjast náið með þróun samkomulagsins en að mati þess verður áhugavert að meta vandlega þær umbætur sem nýtt samkomulag gæti haft í för með sér þegar öll viðeigandi gögn hafa borist frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Við það mat verður sérstaklega litið til þess hvort söfnun persónuupplýsinga sem varða þjóðaröryggi - sé takmörkuð við það sem nauðsynlegt og hóflegt. Að auki mun EDPB skoða hvort réttur einstaklinga til skilvirks úrræðis og sanngjarnar málsmeðferðar fyrir dómi verði virt. Skoðað verður hvort aðilar þjóðaröryggiskerfisins hafi aðgang að viðeigandi upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, og hvort sá eftirlitsaðili með vinnslu persónuupplýsinga, sem Bandaríkin hyggjast koma á fót, hafi aðgang að viðeigandi upplýsingum, þ.m.t. persónuupplýsingum, og hvort það geti tekið bindandi ákvarðanir gegn leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna. EDPB mun einnig skoða hvort til staðar sé virkt réttarúrræði fyrir þá sem vilja hnekkja ákvörðunum eftirlitsaðilans.
EDPB ítrekar að það er enn staðráðið í að gegna uppbyggilegu hlutverki við að tryggja öryggi persónuupplýsinga við flutning þeirra yfir Atlantshafið.
Bréf þar sem áhyggjum er lýst af nýjum tillögum í Belgíu sem miðar að því að breyta lögum um belgísku persónuverndarstofnunina og telur EDPB að lagabreytingin geti haft neikvæð áhrif á stöðugleika og sjálfstæði belgísku stofnunarinnar.
Ráðið telur að fyrirhugaðar lagabreytingar geti haft skaðleg áhrif á sjálfstætt og óháð eftirlit persónuverndarstofnana. EDPB leggur áherslu á að sjálfstæði persónuverndarstofnana sé órjúfanlegur þáttur í réttinum til persónuverndar og sé þannig verndað af mannréttindaskrá ESB og sáttmálanum um Evrópusambandið.