Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Frumkvæðisathugun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á vinnslu persónuupplýsinga í sameiginlegum sjúkraskrárkerfum

3. október 2024

Merki - Persónuvernd

Persónuvernd hefur ákveðið að hefja frumkvæðisathugun á vinnslu persónuupplýsinga í sameiginlegum sjúkraskrárkerfum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem haldin eru á grundvelli VI. kafla laga nr. 55/2009 um sjúkraskrá.

Ákvörðun um framangreinda frumkvæðisathugun er byggð á 1. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og má rekja til úrskurðar í máli nr. 2023071182 frá 23. september síðastliðnum, þar sem Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri fyrir hendi skýr lagagrundvöllur fyrir beinum uppflettiaðgangi trúnaðarlæknis Samgöngustofu í sameiginlegri rafrænni sjúkraskrá sem haldin var á grundvelli samnings stofnunarinnar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt var samningurinn ekki talinn uppfylla skilyrði 1. mgr. og 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár, þ.e. varðandi leyfi ráðherra og staðfestingu Persónuverndar á öryggi persónuupplýsinga í kerfinu.

Við ákvörðun um að hefja frumkvæðisathugunina var einkum litið til þess að vinnsla persónuupplýsinga í sameiginlegum sjúkraskrárkerfum varðar breiðan hóp fólks, eðlis þeirra upplýsinga sem eru undir og hversu mikla áhættu vinnslan hefur í för með sér fyrir persónuvernd hinna skráðu, sbr. 2. mgr. 30. gr. reglna nr. 1150/2023 um málsmeðferð Persónuvernd.

Með bréfi til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 26. september sl., óskaði Persónuvernd m.a. upplýsinga um alla þá aðila sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur samið við um aðgang að sameiginlegu sjúkraskrárkerfi, á grundvelli VI. kafla laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár, og á hvaða lagagrundvelli slíkur aðgangur byggist.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugarvegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820