Fræðsluferð um land allt um mikilvægi persónuverndar, miðlalæsis og netöryggis barna í stafrænni tilveru
17. október 2023
Netumferðarskólinn er um þessar mundir á ferðalagi um landið að heimsækja nemendur og kennara í 4.-7. bekk. Ferðalagið hófst á Austurlandi og mun verkefnið halda áfram för sinni um landið næstu mánuði. Netumferðarskólinn er samstarfsverkefni Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar og miðar að því að efla fræðslu um persónuvernd, miðlalæsi og netöryggi barna í stafrænni tilveru. Átakið var tilkynnt á alþjóðlega netöryggisdeginum í ár og er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027.
Útfærsla verkefnisins er tvískipt:
Annars vegar er um að ræða fræðsluferð um landið þar sem boðið verður upp á fræðsluerindi fyrir börn í 4.-7. bekk ásamt fræðslu fyrir kennara og foreldra þar sem því verður við komið. Fræðsluerindin eru blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.
Hins vegar verður opnuð heimasíða með fræðslu- og kennsluefni sem verður aðgengilegt öllum grunnskólum landsins. Á heimasíðunni verður að finna fjölbreytta fræðslu í formi myndbanda og texta ásamt verkefnum og stuðningsefni fyrir kennara.
Öll fræðsluerindi í skólunum og efni á heimasíðu er þeim að kostnaðarlausu.
Viðtökurnar hafa verið frábærar og strax hefur borið á eftirspurn eftir álíka fræðslu fyrir alla bekki.
Mynd: Steinunn Birna Magnúsdóttir frá Persónuvernd og Skúli Bragi Geirdal frá Fjölmiðlanefnd með fræðsluerindi á Fáskrúðsfirði