EDPB: Stefna Evrópska persónuverndarráðsins 2024-2027
22. apríl 2024
Evrópska persónuverndarráðið (EDPB) lagði fram stefnu sína fyrir 2024-2027 á árlegum fundi ráðsins í Brussel 16.-17. apríl sl. Þá hefur EDPB tryggt farveg fyrir kvartanir Evrópubúa yfir vinnslu persónuupplýsinga þeirra í Bandaríkjunum (e. EU-US Data Privacy Framework (DPF)).
Hin nýja stefna byggir einkum á fjórum grunnstoðum sem eiga að stuðla að því að markmið hennar náist. Grunnstoðirnar eru:
1. Áhersla verði lögð á samræmingu og framfylgni við persónuverndarlöggjöfina
2. Auka á samræmi við fullnustu mála og skilvirkni samvinnunnar
3. Standa vörð um persónuvernd í heimi hraðra breytinga stafrænna lausna án landamæra
4. Auka alþjóðlega umræðu um persónuvernd
Formaður Evrópsku persónuverndarráðsins, Anu Talus, sagði nýju stefnuna taka fyrri sýn EDPB í nýjar áttir í þeim tilgangi að bregðast við aukinni þörf fyrir persónuvernd í hinu ört vaxandi umhverfi stafrænna lausna. Stefnan sem sé afrakstur samstarfs persónuverndarstofnana Evrópu setji fram sameiginleg markmið þeirra fyrir komandi ár.
Í nýju stefnunni verður jafnframt lögð áhersla á samspil persónuverndarlöggjafarinnar og stafræna regluverks Evrópusambandsins (DMA og DSA). Unnið verður að því að auka samstarf við önnur eftirlitsyfirvöld í þeim tilgangi að innleiða persónuvernd í heildarregluverkið. EDPB mun auk þess fylgjast áfram náið með áskorunum á sviði persónuverndar sem fylgir notkun nýrrar tækni svo sem gervigreindar.