EDPB: Notendur stórra netmiðla eiga að fá raunverulegt val um vinnslu persónuupplýsinga í auglýsingaskyni
19. apríl 2024
Á fundi Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) í Brussel 16.-17. apríl sl. samþykkti ráðið álit sitt sem fjallar um lögmæti þess að stórir netmiðlar (e. large online platforms) krefji notendur um að samþykkja vinnslu persónuupplýsinga um sig m.a. í þágu persónusniðinnar markaðssetningar ellegar borga fyrir notkun miðilsins.
Í álitinu kemur meðal annars fram að stórir netmiðlar ættu að gefa notendum sínum raunverulegt val. Í dag þurfi notandinn annaðhvort að heimila vinnslu allra persónuupplýsinga um sig í markaðslegum tilgangi eða greiða fyrir þjónustuna. Því velji flestir að heimila vinnsluna án þess að gera sér að fullu grein fyrir afleiðingum þess. Ráðið telur að í flestum tilfellum uppfylli slíkt samþykki ekki skilyrði persónuverndarreglugerðarinnar og geti því ekki talist gilt samþykki. Slíkt samþykki ætti því ekki að vera sjálfgefið viðskiptamódel ábyrgðaraðilanna. Ráðið telur að bjóða þurfi notendum upp á fleiri raunverulega valkosti. Netmiðlar gætu þannig boðið notendum sínum upp á ókeypis þjónustu án persónusniðinnar markaðssetningar, t.d. með tegund auglýsinga sem byggja á minni eða engri vinnslu persónuupplýsinga. Við mat á gildi samþykkis samkvæmt reglugerðinni sé enda sérstaklega litið til þess hvort frekari valkostir standi notendum til boða.
Evrópska persónuverndarráðið tekur fram að það að ábyrgðaraðili afli samþykkis notenda leysi hann ekki undan skyldunni til að uppfylla skilyrði meginreglna reglugerðarinnar um vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal um tilgang, lágmörkun gagna, sanngirni og meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga. Þá þurfa þeir jafnframt að uppfylla skilyrði um nauðsyn vinnslunnar. Auk þess ber ábyrgðaraðili ábyrgð á að geta sýnt fram á að vinnsla á hans vegum samræmist reglugerðinni.
Niðurstaða Evrópska persónuverndarráðsins er því sú að til að samþykki notenda við þessar aðstæður teljist gilt þurfi þeim að bjóðast raunverulegur valkostur umfram það að greiða fyrir þjónustuna.
Lesa má nánar um álit Evrópska persónuverndarráðsins hér að neðan.
Evrópska persónuverndarráðið hefur gefið út viðmið við mat á upplýstu, sértæku og ótvíræðu samþykki þegar stórir netmiðlar nota framangreint viðskiptamódel. Þá mun Evrópska persónuverndarráðið auk framangreinds álits gefa út leiðbeiningar vegna notkunar „samþykkja eða borga“- viðskiptamódelsins.