Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Ársskýrsla Persónuverndar 2024

28. ágúst 2025

Ársskýrsla Persónuverndar fyrir árið 2024 er komin út. Í ársskýrslunni má meðal annars finna tölfræðilegar upplýsingar og ýmsan fróðleik um hlutverk og starfsemi Persónuverndar, auk formála forstjóra, þar sem farið er yfir helstu verkefni stofnunarinnar á árinu.

Ársskýrsla Persónuverndar 2024

Formáli forstjóra

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.


Það var af mörgu að taka í starfsemi Persónuverndar árið 2024, eins og fyrri ár. Athygli stofnunarinnar beinist að vinnslu persónuupplýsinga hérlendis, en jafnframt hefur erlent samstarf mikið vægi, enda er löggjöfin sú sama hér og í Evrópu, og því mikilvægt að fylgjast með framkvæmd mála í löndunum í kringum okkur.


Vátryggingafélög huga að persónuvernd og starfsleyfi fyrir Creditinfo


Af afgreiðslu stærri mála er ánægjulegt að benda á að stærstu íslensku vátryggingafélögin, sem taka sjálfvirkar ákvarðanir um umsóknir og óskir um tilboð í líf- og sjúkdómatryggingar, uppfylla í meginatriðum þær kröfur sem persónuverndarlöggjöfin gerir í þeim efnum. Tryggingafélög meðhöndla mikið magn persónuupplýsinga og því er mikilvægt að þau séu meðvituð um þær reglur sem hér gilda. Þá var gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Creditinfo Lánstraust hf., en dómsmálaráðuneytinu jafnframt bent á að mögulega þyrfti að huga betur að lagaumhverfi fjárhagsupplýsingastofa hérlendis.


Persónuvernd barna – leikjaspilun á Netinu


Persónuvernd barna hefur fengið mikið vægi í starfsemi stofnunarinnar undanfarin ár, enda eiga upplýsingar um börn að njóta sérstakrar verndar. Með það í huga birti Persónuvernd leiðbeiningar um persónuvernd barna í leikjaspilun á Netinu, sem unnar voru í samvinnu við aðrar norrænnar persónuverndarstofnanir. Fyrirtæki hafa verið staðin að því að viðhafa afar nærgöngula rýni á hegðun barna í slíkum leikjum. Slíkar upplýsingar er hægt að nýta í ýmiss konar tilgangi og jafnvel selja óviðkomandi aðilum þær.


Dómsmál – Seesaw og Íslensk erfðagreining


Á árinu var ákvörðun Persónuverndar um vinnslu persónuupplýsinga í Seesaw-nemendakerfinu af hálfu Reykjavíkurborgar staðfest að hluta í Hæstarétti. Ýmis brot sveitarfélagsins gegn persónuverndarlöggjöfinni voru staðfest, en athugasemdir voru jafnframt gerðar við máls-meðferð Persónuverndar í málinu, sem leiddi til þess að dómurinn taldi ekki næga ástæðu til að leggja á Reykjavíkurborg sekt. Þá dæmdi þrískipaður Landsréttur Persónuvernd í vil gegn Íslenskri erfðagreiningu vegna vísindarannsóknar sem fyrirtækið gerði í Covid-faraldrinum. Fyrirtækið hefur áfrýjað þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar. Persónuvernd fagnar fleiri dómum frá dómstólum landsins, en þeir hafa fordæmisgildi varðandi túlkun og beitingu persónuverndarlöggjafarinnar.


Gervigreind getur leitt til góðs, en á henni þarf að hafa gætur


Árið 2024 markaði tímamót í þróun stafrænnar tækni og beitingu gervigreindar. Aldrei fyrr hafa tækniframfarir haft jafn djúpstæð áhrif á daglegt líf manna, atvinnuhætti og þjónustu, svo að segja í öllum heiminum. Evrópska persónuverndarráðið hefur gefið út álit um tiltekin álitaefni tengd notkun persónuupplýsinga í þágu gervigreindar og eru frekari leiðbeiningar væntanlegar frá ráðinu á næstu misserum. Gervigreind getur leitt til góðs, en á henni þarf að hafa gætur. Aldrei hefur verið mikilvægara að tryggja að tækniþróun gangi ekki á réttindi einstaklinga. Við hjá Persónuvernd stöndum okkar vakt, en samfélagið í heild þarf að gæta þess að sómi verði að innleiðingu gervigreindar í allri starfsemi hérlendis.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 10 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820