Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Almennur dómstóll Evrópusambandsins vísar frá kröfu um ógildingu á samkomulagi um flutning persónuupplýsinga frá Evrópu til Bandaríkjanna

9. september 2025

Þann 3. september sl. féll dómur almenna dómstóls Evrópusambandsins (e. General Court, EGC) þar sem beiðni um ógildingu jafngildisákvörðunar vegna flutninga persónuupplýsinga til Bandaríkjanna var hafnað.

Málið var höfðað af frönskum ríkisborgara vegna flutnings persónuupplýsinga hans til Bandaríkjanna. Óskað var eftir ógildingu jafngildisákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar frá 2023 um fullnægjandi vernd persónuupplýsinga vegna flutnings til Bandaríkjanna. Dómsmálið var tvíþætt; annars vegar var kvartað yfir því að endurskoðunardómstóll persónuverndar (e. the Data Protection Review Court, DPRC) sé ekki sjálfstæður í störfum sínum, hins vegar yfir því að magnsöfnun (e. bulk collection) leyniþjónusta á persónuupplýsingum, án fyrra samþykkis dómstóla eða sjálfstæðs stjórnvalds, sé ekki afmörkuð með nægilega skýrum og nákvæmum hætti og því ólögmæt.

Hvað sjálfstæði DPRC varðar byggði dómstóllinn niðurstöðu sína m.a. á því að skipun dómara sem og starfsemi DPRC njóti verndar til að tryggja sjálfstæði dómstólsins. Einnig var vikið að því að framkvæmdastjórninni sé skylt að fylgjast með beitingu jafngildisákvörðunarinnar sem og þróun í lagaumhverfi hennar, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Framkvæmdastjórnin getur því ákveðið að fella úr gildi og/eða breyta jafngildisákvörðun sinni ef aðstæður gefa tilefni til, s.s. vegna breytinga á lagaumhverfi í Bandaríkjunum. Að því virtu hafnaði dómstóllinn þeim rökum að DPRC væri ekki sjálfstæður í störfum sínum.

Þá taldi dómstóllinn að niðurstaða Schrems II gefi ekki tilefni til að álykta sem svo að söfnun persónuupplýsinga þurfi nauðsynlega að vera háð fyrir fram samþykki sjálfstæðs stjórnvalds. Aftur á móti sé ljóst að ákvörðun sem heimilar söfnun verði, að lágmarki, að geta verið borin undir dómstóla. Þar sem söfnun leyniþjónusta í Bandaríkjunum á persónuupplýsingum er háð endurskoðun DPRC gat dómstóllinn ekki fallist á að magnsöfnun bandarískrar leyniþjónustu uppfylli ekki kröfurnar sem settar voru fram í Schrems II né að bandarísk lög tryggi ekki fullnægjandi réttarvernd. Var því kröfu málsaðila um ógildingu jafngildisákvörðunarinnar, á þeim forsendum, hafnað.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Dómstóls Evrópusambandsins (e. Court of Justice of the European Union, CJEU)

Sjá nánar fréttatilkynningu dómstólsins.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 10 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820