Ábending frá Persónuvernd vegna svara mennta- og barnamálaráðherra
8. september 2025
Vegna svars mennta- og barnamálaráðherra við skriflegri fyrirspurn alþingismanns um kostnað vegna jafnréttismála og kynjafræði vill Persónuvernd koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Með fyrirspurn alþingismannsins var spurt um árlegan kostnað ráðuneytisins og undirstofnana þess frá árinu 2017 við þjónustu, ráðgjöf, stefnumótun og fræðslu sem útvistað hefur verið og tengist jafnréttismálum og kynjafræði og óskaði fyrirspyrjandi eftir því að svarið yrði sundurliðað eftir m.a. viðtakendum greiðslna.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að með hliðsjón af persónuverndarsjónarmiðum og þar sem um getur verið að ræða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga séu ekki birtar upplýsingar um nöfn einstaklinga sem taka við greiðslum heldur aðeins tilgreint að um einstakling sé að ræða.
Persónuvernd vill hins vegar vekja athygli á því að í 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 kemur fram að vinnsla persónuupplýsinga sé m.a. heimil ef vinnslan er nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með.
Persónuverndarsjónarmið standa því ekki sjálfkrafa því í vegi að upplýsingarnar séu birtar.
