Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Fyrirspurn um friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi á Netinu

11. febrúar 2010

Persónuvernd hefur svarað almennri fyrirspurn um friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi á Netinu vegna Facebook samskiptavefsins.

Merki - Persónuvernd

Svar Persónuverndar:

Persónuvernd hefur móttekið fyrirspurn yðar, dags. 16. október 2009, varðandi rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs á Netinu, hvort unnt sé að loka umræddri vefsíðu sem hýst er innan samskiptavefsins Facebook og hvaða aðili og/eða stofnun hafi slíkt með höndum?

Persónuvernd er ekki kunnugt um að til séu sérstök lagaákvæði sem koma í veg fyrir að fólk sé nafngreint, eða að um það sé skrifað, á Netinu, hvorki í sérlögum né lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Almennt er talið að aðili beri ábyrgð á orðum sínum á Netinu sem telst opinber vettvangur. Ábyrgð kæmi helst til greina í þeim tilvikum þar sem aðili hefur heitið öðrum nafnleynd en nefnir hann þrátt fyrir það eða ef aðili hefur brotið gegn ákvæðum um þagnarskyldu sem finna má víða í lögum. Einnig getur aðili sætt ábyrgð samkvæmt XXV. kafla Almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Samkvæmt 229. gr. laganna er refsivert að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi. Ef aðili telur að brotið hafi verið gegn framangreindum ákvæðum ber honum að snúa sér til lögregluyfirvalda.

Í stjórnarskrá Íslands er að finna ákvæði um grundvallarmannréttindi þegnanna. Er því rétt að fara nokkrum orðum um grundvallarregluna um tjáningarfrelsi sem finna má í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en hann hefur lagagildi hér á landi sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Þar segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Dreifing upplýsinga eins og þú nefnir í erindi yðar gæti talist falla undir tjáningarfrelsi í skilningi ákvæðisins. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 kemur fram að tjáningarfrelsið sé óumdeilanlega ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags, en engu að síðar meðal vandmeðförnustu mannréttinda og að ekki sé hægt að njóta þess án ábyrgðar. Því má setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum, m.a. vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þessar takmarkanir á tjáningarfrelsinu eru settar með hliðsjón af rétti manna til friðhelgi einkalífs, sem verndaður er af 71. gr. stjórnarskrár.

Réttur einstaklings til friðhelgis einkalífs, heimilis og fjölskyldu er verndaður í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, sbr. lög nr. 20/2001, er svo kveðið nánar á um réttindi til friðhelgi einkalífs að því er meðferð persónuupplýsinga varðar. Þessi lög hafa að geyma ákvæði sem eiga að tryggja einkalífsrétt manna við meðferð persónuupplýsinga, m.a. með því að kveða á um skyldur þeirra sem vinna með slíkar upplýsingar.

Hins vegar verður að skýra lög nr. 77/2000 með þeim hætti að þau brjóti ekki gegn framangreindri grundvallarreglu um tjáningarfrelsi manna. Þegar kemur að skrifum manna á Netinu getur þurft að taka mið af ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Fyrra ákvæðið fjallar um tengsl laga um persónuvernd við tjáningarfrelsi og veitir heimild til að víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta að því marki sem slíkt telst nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Miðlun upplýsinga getur talist falla undir tjáningarfrelsi í skilningi stjórnarskrárákvæðisins, sbr. og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Af framangreindu er ljóst að ávallt er nauðsynlegt að fram fari hagsmunamat um það, hvort vegi þyngra í hverju einstöku tilviki friðhelgi einkalífs eða tjáningarfrelsi. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það, hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis. Er þá sérstaklega litið til þess að samkvæmt 1. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, að því marki sem slíkt er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Að mati Persónuverndar fellur úrlausn slíkra mála undir valdsvið dómstóla.

Persónuvernd vekur hins vegar athygli yðar á þeim möguleikum sem Facebook-samskiptavefurinn sjálfur býður upp á en samkvæmt notendaskilmálum hans er öðrum notendum unnt að senda inn kvörtun vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum aðila s.s. vegna misnotkunar á efni sem nýtur verndar höfundarréttarlaga (unnt er að fylla út kvörtunarform hér: http://www.facebook.com/terms.php?ref=pf). Þó ekki sé um að ræða höfundavarið efni í yðar tilviki segir engu að síður í lið 3 í „Yfirlýsingu um réttindi og ábyrgð notenda" (e. Statement of Rights and Responsibilities) að óheimilt sé að leggja tiltekinn notanda í einelti, hóta honum eða ofsækja sbr. 6. tölul. 3. gr. reglnanna auk þess sem óheimilt er að nota Facebook til þess að framkvæma nokkuð sem er ólögleg, villandi, illkvittið eða hefur mismunun í för með sér sbr. 10. tölul. sömu greinar. Það álitaefni er þér kvartið yfir gæti heyrt undir framangreinda töluliði reglnanna. Auk þess er unnt að „tilkynna" (e. report) aðra notendur eða vefsvæði sem þeir halda úti með því að ýta á s.k. tilkynningarhnapp á hverri vefsíðu.

Að lokum bendir Persónuvernd yður á bréf er stofnunin sendi dómsmálaráðherra, dags. 17. september 2009, er varðaði birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga á Netinu. Í bréfinu lagði Persónuvernd til við ráðherra að hann kannaði hvort fýsilegt væri að setja í lög heimild fyrir dómstóla til þess að úrskurða að kröfu lögreglu (og/eða mögulega þess sem misgert er við) um að fjarskiptafyrirtæki hér á landi lokuðu fyrir aðgang viðskiptavina að tiltekinni síðu þar sem slíkt efni kæmi fram. Það væri í betra samræmi við réttaröryggi að mælt væri fyrir um slíkt réttarúrræði í lögum og dómstólum fengið að skera úr um hvenær skilyrði laga væru uppfyllt til að nota þau, heldur en að fjarskiptafyrirtæki tækju ákvarðanir um slík mál. Bréfið má finna á heimasíðu stofnunarinnar, www.personuvernd.is (/efst-a-baugi/nr/929).

Með vísan til alls sem er fram komið eru ekki forsendur fyrir því að Persónuvernd leggi efnislegt mat á hvort einkalífsrétti einstaklinga hafi verið raskað, með vísan til 71. og 73. gr. Stjórnarskrárinnar en vísar til fyrri ábendinga m.a. um atbeina lögreglu í sams konar tilvikum og að framan hefur verið minnst á.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820