Samkeyrsla upplýsinga um lögmenn við skrár um gjaldþrot, refsidóma, starfsábyrgðartryggingar o.fl.
4. janúar 2010
I.
Erindi LMFÍ
Persónuvernd vísar til bréfs Lögmannafélags Íslands (LMFÍ), dags. 16. nóvember 2009. Þar segir:
„Samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn hefur Lögmannafélag Íslands með höndum margþætt eftirlitshlutverk með lögmönnum. Megininntak þessa eftirlits endurspeglast m.a. í 1. mgr. 13. gr. laganna, þar sem segir að félagið hafi eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum samkvæmt 6., 9. og 12. gr. laganna. Meðal þess sem tilgreind ákvæði fela í sér er eftirlit með því að bú lögmanns hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og að lögmaður hafi óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis. Einnig að sjálfstætt starfandi lögmenn hafi gilda ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi og sérstakan fjárvörslureikning í viðurkenndri bankastofnun til að varðveita fjármuni skjólstæðinga sinna, sem lögmönnum er skylt að halda aðgreindum frá eigin fé.
Framkvæmd eftirlits Lögmannafélagsins er margháttuð, en árlega kallar félagið eftir sérstakri fjárvörsluyfirlýsingu, staðfestri af löggiltum endurskoðanda, til staðfestingar á því að fjármunir skjólstæðinga lögmanna séu varðveittir á viðeigandi fjárvörslureikningum. Einnig fær félagið sendar tilkynningar frá vátryggingafélögum við gildistöku nýrra trygginga, uppsögn þeirra eða niðurfellingu vegna vanskila. Loks fær félagið alla jafna sendar tilkynningar frá dómstólum og/eða skiptastjórum þegar bú lögmanns er tekið til gjaldþrotaskipta. Á síðustu misserum hafa hins vegar komið upp tilvik þar sem slíkar upplýsingar hafa ekki borist félaginu og eins hafa komið upp tilvik þar sem tryggingafélögum hefur láðst að tilkynna um uppsögn trygginga. Þá eru engar fastmótaðar reglur til staðar varðandi skil upplýsinga um refsidóma sem lögmenn kunna að hljóta og haft geta áhrif á mannorð hlutaðeigandi og þar með málflutningsréttindin.
Hlutverk Lögmannafélagasins sem eftirlitsaðila hefur aukist gríðarlega á þeim rúmum 10 árum sem lög um lögmenn hafa verið í gildi, enda hefur félagsmönnum fjölgað um 60% á þessu árabili. Þessi mikla fjölgun lögmanna og sú staðreynd að nýir lögmenn koma nú úr lagadeildum a.m.k. fjögurra háskóla, hefur haft það í för með sér að lögmenn og dómarar þekkja nú síður deili á lögmönnum en áður og því hætta á að nauðsynlegar upplýsingar um gjaldþrot eða refsidóma lögmanna berist félaginu ekki. Jafnframt hafa þessar breytingar leitt til þess almennt að „manuelt" eftirlit félagsins með félagsmönnum er því sem næst orðið óframkvæmanlegt.
Til að tryggja betur lögbundið eftirlit félagsins með lögmönnum telur stjórn þess mikilvægt að kanna hvort samkeyra megi, með reglulegu millibili, ýmsar opinberar upplýsingar, sem og viðskiptaupplýsingar einkafyrirtækja, við lista lögmannafélagsins yfir skráða félagsmenn. Þær upplýsingar sem hér um ræðir eru m.a. upplýsingar úr sakaskrá, skrá Lánstrausts hf. um gjaldþrot lögmanna, skrár íslenskra vátryggingafélaga um gildar starfsábyrgðartryggingar lögmanna á hverjum tíma og loks upplýsingar viðskiptabanka og sparisjóða um skráða fjárvörslureikninga lögmanna. Gert er ráð fyrir að samkeyrsla þessara upplýsinga fari fram eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
Með rafrænni samkeyrslu framangreindra upplýsinga mætti tryggja mun nákvæmari upplýsingar um atvik sem haft geta áhrif á málflutningsréttindi lögmanna og þá um leið bregðast fyrr við slíkum atvikum með viðeigandi hætti. Hafa verður hugfast að megintilgangur hins lögbundna eftirlits Lögmannafélagsins er að vernda hagsmuni skjólstæðinga lögmanna, þ.e. þeirra einstaklinga og lögaðila sem kaupa þjónustu lögmanna. Því telur félagið að samkeyrsla tilvísaðra upplýsinga við félagatal lögmanna uppfylli almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd, einkum 3., 5. og 6. tl. 2. mgr. 8. gr. laganna. Slík samkeyrsla yrði framkvæmd af viðurkenndum fagaðilum og samkvæmt fyllstu öryggiskröfum. Með vísan til framangreinds leyfir stjórn Lögmannafélags Íslands sér að kanna hvort Persónuvernd telji einhverja annmarka á slíkri samkeyrslu upplýsinga og sé svo, hvort og þá hvernig megi yfirvinna þá."
II.
Svar Persónuverndar
Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil, þ. á m. samkeyrsla slíkra upplýsinga, verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar verður einnig að vera fullnægt einverju viðbótarskilyrðanna fyrir vinnslu slíkra upplýsinga sem talin eru upp í 9. gr. laganna. Á meðal þeirra upplýsinga, sem LMFÍ hyggst fá samkeyrðar við félagatal sitt, eru upplýsingar um refsidóma. Þær upplýsingar eru viðkvæmar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn mega lögmenn ekki hafa orðið að sæta því að bú þeirra sé tekið til gjaldþrotaskipta og hafa óflekkað mannorð svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis. Þá segir í 2. mgr. 25. gr. laganna að lögmenn skuli hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Í 13. gr. er mælt fyrir um að LMFÍ skuli hafa eftirlit með því að þessum skilyrðum sé fullnægt. Þar segir:
„Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr.
Lögmanni er skylt að veita Lögmannafélagi Íslands eða löggiltum endurskoðanda, sem félagið tilnefnir í því skyni, allar nauðsynlegar upplýsingar til að metið verði hvort hann fullnægi þeim skyldum sem mælt er fyrir um í 12. gr. Ber sá sem gegnir eftirliti þagnarskyldu um það sem hann kemst að raun um, að því leyti sem það varðar ekki tilgang eftirlitsins. Ákveði stjórn félagsins að fela endurskoðanda félagsins að rannsaka fjárreiður lögmanns er félaginu heimilt að krefja lögmanninn um greiðslu kostnaðar við rannsóknina, enda hafi hún verið verulega yfirgripsmikil og leiði í ljós misfellur í starfi.
Komi fram við eftirlit skv. 1. mgr. að lögmaður fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar greinir ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.
Hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn Lögmannafélags Íslands yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings skv. 2. mgr. 23. gr. fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst fullnægjandi, ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum."
Í 8. gr. laga nr. 77/2000 er m.a. mælt fyrir um að vinna megi með persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu, vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna og við beitingu opinbers valds, sbr. 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr. Þá segir í 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Þegar litið er til framangreindra ákvæða 2. mgr. 25. gr. laga nr. 77/1998 telur Persónuvernd þessi ákvæði einkum geta átt við um umræddar samkeyrslur.
Við vinnslu persónuupplýsinga verður ávallt að fara að öllum grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, en þar er m.a. mælt fyrir um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).
Að mati Persónuverndar getur sú vinnsla persónuupplýsinga, sem lýst er í erindi LMFÍ til Persónuverndar, dags. 16. nóvember 2009, stuðst við heimildir í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 að því gættu að farið verði að öllum kröfum þeirra laga, þ. á m. framanröktum kröfum 7. og 11. gr. laganna, sem og reglum 31. og 33. gr., sbr. reglur nr. 712/2008, um tilkynningarskyldu og leyfisskyldu eftir því sem við á.
Tekið skal fram að fúslega verða veitt frekari svör varðandi þær reglur sem fara verður eftir í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga í umræddum tilgangi. Þó skal tekið fram að áður en slík svör eru veitt er æskilegt að veittar verði frekari skýringar á því hvernig umræddri vinnslu verður hagað.