Vátryggingafélög. Öflun upplýsinga um heilsufar ættingja
9. desember 2009
Svar við almennri fyrirspurn um heimildir vátryggingafélags til að afla upplýsinga um heilsufar ættingja umsækjenda um sjúkdómatryggingu.
Persónuvernd hefur borist almenn fyrirspurn um heimildir vátryggingafélags til öflunar upplýsinga um heilsufar ættingja umsækjenda um sjúkdómatryggingu. Í svari Persónuverndar sagði m.a.:
„Sjúkdómaryggingar teljast til svonefndra persónutrygginga, en um þær er fjallað í II. hluta laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, þ.e. 61.–140. gr. laganna. Í 82. gr. er fjallað um öflun heilsufarsupplýsinga vegna persónutrygginga. Þar segir eftir þær breytingar sem gerðar voru á greininni með lögum nr. 156/2007:
„Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Í þeim tilgangi er félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin óháð því hvernig sjúkdómur hefur greinst. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör eftir bestu vitund við spurningum félagsins. Vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skal staðfesta að þær upplýsingar sem hann veitir um sjúkdóma foreldra eða systkina sinna séu veittar með þeirra samþykki, enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað slíks samþykkis. Afli vátryggingafélag upplýsinga um sjúkdóma vátryggingartaka eða vátryggðs frá öðrum en honum skal, áður en þeirra er aflað, liggja fyrir skriflegt upplýst samþykki hans. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félaginu óheimilt fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm. Félaginu er einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar.
Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað.
Félagið skal halda saman upplýsingum um fjölda þeirra sem er synjað um töku tryggingar eða er gert að greiða hærri iðgjöld vegna áhættumats sem byggist á lagagrein þessari."
Af framangreindu leiðir að samkvæmt 82. gr. laga nr. 20/2004 hafa líftryggingafélög heimild til að óska eftir upplýsingum frá umsækjanda um líftryggingu um heilsufar foreldra hans og systkina. Ákvæði 1. mgr. 82. gr. gerir ráð fyrir að umsækjandi leiti sjálfur samþykkis foreldra og systkina fyrir veitingu upplýsinganna. Ekki er gert að skilyrði í ákvæðinu að samþykkið sé skriflegt. Ef upp rís ágreiningur um hvort samþykki hafi verið veitt er hins vegar ljóst að sönnun um það getur reynst örðug ef ekki liggur fyrir skrifleg samþykkisyfirlýsing.
Upplýsingaöflun samkvæmt 82. gr. laga nr. 20/2004 verður að samrýmast ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ. á m. grunnreglum 1. mgr. 7. gr. laganna. Þar segir m.a. að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).
Af framangreindu leiðir að vátryggingafélag á ekki að fara fram á frekari upplýsingar en nauðsynlegar eru við afgreiðslu umsóknar. Þegar umsækjandi sækir um líftryggingu getur það m.a. falið í sér að vátryggingafélag skuli ekki óska upplýsinga um hver nánustu ættingja hans hafi fengið tiltekinn sjúkdóm. Þess í stað skuli það látið nægja að fara fram á upplýsingar um hvort einhver úr hópi foreldra hans og systkina hafi fengið sjúkdóminn. Þá á ekki að afla heilsufarsupplýsinga sem ekki hafa gildi við mat á áhættu þegar umsókn um líftryggingu er afgreidd.