Notkun ríkisskattstjóra á myndum úr efirlitsmyndavélum á bensínstöðvum
20. nóvember 2009
Svar um notkun RSK á myndum bensínstöðva vegna eftirlits með lögum nr, 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.
Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn um eftirlitsaðgerðir ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr, 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Óskað var eftir upplýsingum um heimild ríkisskattstjóra til þess að fá myndir úr eftirlitsmyndavélum á eldsneytisstöðvum olíufélaganna til þess að nota í þágu opinbers eftirlits með notkun á litaðri olíu sbr. lög nr. 87/2004.
Í svari Persónuverndar segir m.a.:
"Um notkun persónuupplýsinga sem til verða við rafræna vöktun gildir ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar kemur fram að þrátt fyrir að almenn skilyrði 1. mgr. 9. gr., um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga séu ekki uppfyllt megi, í tengslum við framkvæmd rafrænnar vöktunar, nota það hljóð- og myndefni sem til verður ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt;
1. að vöktunin sé nauðsynlegt og fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni
2. að það efni sem til verður við vöktunina verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu;
3. að því efni sem safnast við vöktunina verði eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það, nema sérstök heimild Persónuverndar skv. 3. mgr. standi til frekari varðveislu.
Í 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 837/2006 er nánar fjallað um heimild til afhendingar vöktunarefnis. Það ákvæði nær ekki bara til efnis með viðkvæmum persónuupplýsingum ólíkt framangreindu ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Umrætt ákvæði reglnanna hljóðar svo:
"Persónuupplýsingar sem til verða við rafræna vöktun má aðeins nota í þágu tilgangs með söfnun þeirra og aðeins að því marki sem þess gerist þörf í þágu tilgangsins. Þær má ekki vinna með eða afhenda öðrum nema með samþykki hins skráða eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Þó er heimilt að afhenda lögreglu upplýsingar um slys eða meintan refsiverðan verknað."
Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, 94. gr. laga nr, 90/2003, um tekjuskatt og 38. gr. laga nr, 50/1988, um virðisaukaskatt ber ríkisskattstjóra að annast eftirlit með því að ekki sé notuð lituð olía á skráningarskyld ökutæki sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004 segir að eftirlitsmönnum sé heimilt að stöðva ökutæki til að gera þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á skráningarskylt ökutæki, þ. á m. að skoða eldsneytisgeymi og vél ökutækis. Eftirlitsmönnum er einnig heimilt að taka sýni úr eldsneytisgeymi ökutækis og birgðageymum, að beiðni ríkisskattstjóra. Í 3. mgr. 18. gr. segir að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með gjaldskyldum aðilum, sem hlotið hafa skráningu skv. 3. gr. laganna og er heimilt að krefjast þess að fá afhent bókhald og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn. Ennfremur hefur ríkisskattstjóri aðgang að starfsstöðvum og birgðastöðvum. Loks segir í 4. mgr. 18. gr. að hafi ríkisskattstjóri grun um skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald skuli hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Af framangreindum ákvæðum skattalöggjafarinnar má ráða að ríkisskattstjóri fer með ákveðna yfirstjórn sem æðri handhafi stjórnsýsluvalds þegar kemur að eftirliti sem kveðið er á um í skattalöggjöfinni. Í 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er talið upp hverjir séu handhafar lögregluvalds og er ríkisskattstjóri ekki þeirra á meðal og er því ekki unnt að beita 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um afhendingu myndefnis ef um refsiverðan verknað er að ræða. Að mati Persónuverndar hefur ríkisskattstjóri því ekki sömu heimild og lögregla til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga í þágu rannsóknar máls. Verður því ekki séð að hann hafi að gildandi lögum heimild til aðgangs að því myndefni sem safnast í þeim eftirlitsmyndavélum sem eigendur hafa sett upp á eldsneytisstöðvum olíufélaganna."