Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Almenn fyrirspurn um eftirlitsmyndavélar lögreglu

10. nóvember 2009

Persónuvernd hefur svarað almennri fyrirspurn um eftirlitsmyndavélar lögreglu.

Merki - Persónuvernd

Persónuvernd fékk almenna fyrirspurn um eftirlitsmyndavélar lögreglu. Persónuvernd veitti almennar ábendingar varðandi lagaumhverfi og gildandi reglur.

Í svarbréfi Persónuverndar sagði m.a.:

„Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33/1944, er öllum tryggður réttur til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í því felst að hver einstaklingur skal njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi, s.s. að njóta fjölskyldulífs og trúnaðarsamskipta við aðra eins og fram kemur í greinargerð þeirri er fylgdi frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um rafræna vöktun. Í 1. gr. laganna kemur m.a. fram að það sé markmið þeirra að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Um rafræna vöktun, þ.m.t. sjónvarpsvöktun, er fjallað í 4. gr. laganna og segir í 1. mgr. ákvæðisins að hún sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Þá er í málsgreininni þrengt skilyrði þess að vakta svæði með rafrænum hætti sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði og er tiltekið að skilyrði slíkrar vöktunar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Í 3. mgr. 4. gr. er svo áréttað að sjónvarpsvöktun skuli að öðru leyti lúta m.a. ákvæðum 7. gr. laga nr. 77/2000 en hún kveður á um að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera sanngjörn og málefnaleg og í samræmi við góða vinnsluhætti (1. tölul.), í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnið með upplýsingarnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.), upplýsingarnar sem unnið er með eigi að vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsyn krefur vegna vinnslunnar (3. tölul.), þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum (4. tölul.) og ekki persónugreinanlegar lengur en nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (5. tölul.). Ákvæðið gerir einnig kröfu um að meðalhófs sé gætt, í þeim tilfellum sem gengið er á friðhelgi einkalífs, með tilliti til grundvallarréttinda þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og þarf því að meta umfang og aðferðir sem beita á út frá því, s.s. hvort hægt væri að ná settum tilgangi með vægari úrræðum.

Persónuvernd hefur sett sérstakar reglur um rafræna vöktun nr. 837/2006, á grundvelli 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Í 4. gr. reglnanna kemur fram að rafræn vöktun verði að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, s.s. í þágu öryggis eða eignavörslu. Í 5. gr. reglnanna er fjallað um meðalhóf en þar kemur fram að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn beri til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skal gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

Almennt er talið að lögregla hafi heimild til að setja upp eftirlitsmyndavélar á almannafæri ef hún fer að þeim skilyrðum pul. og reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim. Nauðsynlegt er að tilgangurinn sé málefnalegur og gera þarf glögglega viðvart um það þegar löggæsla fer fram með rafrænni vöktun á almannafæri, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Lög nr. 77/2000 ganga einnig út frá því að rafræn vöktun geti verið heimil í vissum tilvikum s.s. á vinnustað eða á almannafæri, sbr. 24. gr., auk þess sem beinlínis segir í 2. mgr. 8. gr. um að rafræn vöktun þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði sé heimil sé hennar sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.

Loks má minnast á ákvæði reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, sem sett er með stoð í 3. mgr. 45. gr. pul., en þar er m.a. að finna ákvæði um rétt aðila til aðgangs að persónuupplýsingum sem skráðar hafa verið um hann hjá lögreglu. Samkvæmt 8. gr. á hinn skráði rétt á að fá frá lögreglu vitneskju um hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með, tilgang vinnslunnar, og hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann. Í 9. gr. er hins vegar mælt fyrir um ákveðnar takmarkanir á upplýsingaréttinum. Rétturinn telst t.d. ekki vera til staðar ef óhjákvæmilegt er að upplýsingar fari leynt vegna lögreglustarfa eða ef nauðsynlegt er að vernda hinn skráða sjálfan eða réttindi eða frelsi annarra. Hér er hægt að nálgast reglugerðina í heild: /log-og-reglur/reglur-og-reglugerdir/nr/375“

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820