Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Birting upplýsinga um skattálagningu

2. nóvember 2009

Persónuvernd hefur svarað almennri fyrirspurn um birtingu upplýsinga um tekjur fólks.

Merki - Persónuvernd

Persónuvernd hefur svarað almennri fyrirspurn um birtingu upplýsinga um tekjur fólks. Í fyrirspurninni stóð m.a.:

„Nú eru að birtast upplýsingar um tekjur fólks í hinum ýmsu blöðum. Launþegi hefur í flestum tilfellum gert trúnaðarsamning um laun sín við vinnuveitanda. Hvaða heimildir hafa þessi blöð til að birta þetta. Er hægt að tilkynna sig inn til skattstjóra þar sem birting upplýsinga samkv. kennitölu er bönnuð."

Persónuvernd leit á fyrirspurnina sem almenna fyrirspurn og fór yfir helstu reglur sem líta verður til í umræddu sambandi.

Sú birting upplýsinga, sem hér um ræðir, felur í sér vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. og 2. tölul. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laganna. Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður hún alla jafna að falla undir eitthvert af skilyrðum 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er m.a. heimilt að vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu (3. tölul.) eða til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra (7. tölul.).

Þegar persónuupplýsingar eru eingöngu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, sbr. 5. gr. laga nr. 77/2000, er hún undanþegin mörgum ákvæðum laganna og þarf hún þá m.a. ekki að styðjast við heimild í 8. gr. Þá verður hins vegar, eins og ávallt við vinnslu persónuupplýsinga, að fara að grunnkröfum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. lagannna. Samkvæmt 1. tölul. skal þess gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti. Þá segir í 4. tölul. að persónuupplýsingar skuli vera áreiðanlegar.

Í 98. gr. laga um tekjuskatt, eins og henni var breytt með lögum nr. 129/2004, segir:

„Þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skulu þeir semja og leggja fram til sýnis eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr. álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu, en í henni skal tilgreina þá skatta sem á hvern gjaldanda hafa verið lagðir samkvæmt lögum þessum. Senda skal hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skal skattstjóri auglýsa rækilega, m.a. í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið svo og hvar og hvenær álagningarskrár liggi frammi. Hafi skattaðili annað reikningsár en almanaksárið skal skattstjóri í stað auglýsingar skv. 3. málsl. senda honum tilkynningu um álagninguna með ábyrgðarbréfi og birta álagninguna í næstu útgáfu á álagningar- og skattskrá. Þá skal skattstjóri senda viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skrá um þá aðila, sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisskattstjóra og ríkisendurskoðanda.

Þegar lokið er álagningu skatta og kærumeðferð, sbr. 99. gr., skulu skattstjórar semja og leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu en í henni skal tilgreina álagðan tekjuskatt hvers gjaldanda og aðra skatta eftir ákvörðun ríkisskattstjóra. Skattskrá skal liggja frammi til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi. Skattstjóri eða umboðsmaður hans auglýsir í tæka tíð hvar skattskrá liggur frammi. Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta."

Af framangreindu er ljóst að skattstjóra ber lögum samkvæmt að birta tilteknar upplýsingar um álagða skatta, sbr. og áðurnefnt ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Ekki er mælt fyrir um rétt manna til að krefjast þess að upplýsingar um skatta, sem á þá eru lagðir, skuli undanþegnar þessari birtingu. Í 2. mgr. 98. gr. laga um tekjuskatt kemur fram að fjölmiðlum, sem öðrum, er heimilt að birta upplýsingar um álagða skatta sem fram koma í skattskrá þegar álagningu og kærumeðferð er lokið.

Ekki er mælt fyrir um sams konar heimild fyrir birtingu upplýsinga úr álagningarskrá, sbr. 1. mgr. 98. gr. Við mat á því hvort engu að síður geti verið heimilt að birta slíkar upplýsingar reynir einkum á fyrrgreint ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Séu upplýsingar einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku þarf vinnslan hins vegar ekki að byggjast á heimild í 8. gr. eins og fyrr er lýst. Aftur á móti gæti þá reynt á hvort við birtinguna væri farið að framangreindum grunnkröfum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna um sanngirni og áreiðanleika. Í því sambandi getur skipt máli að ekki er um endanlegar upplýsingar.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820