Um skimunarbúnað
29. desember 2008
Hinn 18. desember 2008 fóru fulltrúar Persónuverndar á kynningu á vegum Rapiscan og Nortek ehf. þar sem kynnt voru öryggiskerfi til eflingar flugöryggis. Annarsvegar er um að ræða búnað er byggir á röntgen tækni og svipar til málmleitartækja og öryggishliða sem nú þegar er að finna á flestum flugvöllum. Hinsvegar er um að ræða búnað er notar hljóðbylgjur til að skima einstaklinga. Sá búnaður nemur ekki einungis málmhluti heldur jafnframt aðrar tegundir efna, s.s. plast, keramik, og rafeindatæki. Skimunin fer fram með þeim hætti að einstaklingur er skimaður frá tveim hliðum. Nokkrum sekúndum síðar verður til mynd af einstaklingnum í tölvu þar sem hann sést með nokkuð skýrum hætti. Einstaklingurinn verðu fyrir geislun og búnaðurinn framkallar mynd með svipuðum hætti og röntgentækni heilbrigðisstéttarinnar.
Á fundinum kom fram að búnaður sem þessi hefði þegar verið tekin í notkun í Bandaríkjunum og í Finnlandi. Þá kom fram að við framkvæmd á flugvellinum í Helsinki er þess gætt að sá sem fylgist með myndum af einstaklingum á skjá sjái aldrei aðilann sem myndin er af. Þó var fallist á að þær upplýsingar sem um ræðir geti verið persónugreinanlegar þegar einstaklingar hefðu mjög sérstakan líkama.
Fulltrúar Nortek ehf. bentu á að myndir úr búnaðinum væru ekki geymdar og nöfn einstaklinga ekki skráð. Þó er tæknilega mögulegt að taka skjámyndir. Búnaðurinn nær eingöngu að mynda u.þ.b. 2-3 mm inn í skinn einstaklings.
Þar sem kerfið hefur verið tekið í notkun er ýmist um val að ræða eða ekki. Einstaklingar geta á einhverjum flugvöllum látið leita á sér af öryggisverði ef þeir kjósa það frekar. Í Helsinki er þessi möguleiki ekki fyrir hendi og einungis óléttum konum og börnum veitt undanþága frá skimuninni.