Sala Fasteignamats ríkisins á upplýsingum um eignarhald
28. október 2008
Persónuvernd hefur gefið Fasteignamatinu (FMR) svar um heimildir þess til að bjóða útlánafyrirtækjum þá þjónustu að vakta eignarhald fasteigna hjá þeim sem hafa gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna lána hjá viðkomandi fyrirtæki
Persónuvernd hefur gefið Fasteignamatinu (FMR) svar um heimildir þess til að bjóða útlánafyrirtækjum þá þjónustu að vakta eignarhald fasteigna hjá þeim sem eru í sjálfskuldarábyrgð vegna lána hjá viðkomandi fyrirtæki. FMR taldi sig hafa lagaheimild til þessa og vísaði m.a. til 24. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.
Í því ákvæði segir: „Fasteignamati ríkisins er heimilt að vinna úr og láta í té upplýsingar úr Landskrá fasteigna gegn gjaldi sem rennur til stofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá sem fjármálaráðherra staðfestir".
Persónuvernd taldi að þótt ákveðin úrvinnsla og miðlun á fyrirliggjandi upplýsingum yrði reist á þessari lagaheimild verði ekki talið að ákvæði með svo almennu orðalagi veitti FMR heimild til svo íþyngjandi og víðtækrar vinnslu sem það stefndi að. Var þá einkum litið til þess að umrædd vinnsla er í eðli sínu rafræn vöktun á einstaklingum og að til slíks þarf að vera ótvíræð og skýr lagaheimild, enda getur vinnslan falið í sér mikið og íþyngjandi inngrip í einkalíf fólks.
Féllst Persónuvernd því ekki á að löggjafinn hefði, með 24. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, veitt FMR heimild til að vakta „eignarhald fasteigna þeirra lántakenda sem gengist hefðu í sjálfskuldarábyrgð vegna lána hjá viðeigandi lánastofnun".