Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Verkefni Samtaka atvinnulífsins: „Endurheimt verðmæta“

13. október 2008

Persónuvernd hefur tjáð SA afstöðu sína til verkefnis sem þau nefna Endurheimt verðmæta. Hún telur lögmæti þess orka tvímælis.

Merki - Persónuvernd

I.

Grundvöllur málsins.

1.

Upphaf máls

Samskipti Persónuverndar og

Samtaka atvinnulífsins

Persónuvernd barst erindi Samtaka atvinnulífsins, dags. 18. mars sl., þar sem þau kynntu verkefni undir heitinu: „Endurheimt verðmæta". Þar sagði:

„Endurheimt verðmæta gengur í stuttu máli út á að í stað þess að kæra alla þjófnaði til lögreglu geti verslun þess í stað gert samkomulag við þjófinn um að greiða bætur til verslunarinnar. [...] Gert er ráð fyrir að það form sem notað verði við gerð sátta feli í sér að sá sem hefur verið staðinn að þjófnaði í verslun veiti upplýst samþykki fyrir vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem fram koma í sáttinni[...]"

Fram kom að verkefnið væri að erlendri fyrirmynd. Var í því sambandi m.a. vísað til Bretlands og Hollands. Í kjölfarið ákvað Persónuvernd að afla upplýsinga frá systurstofnunum sínum í fyrrgreindum löndum um málið. Svör bárust frá Bretlandi 18. apríl 2008 og Hollandi 23. s. m. Fram kom að í Bretlandi geta verslunareigendur beitt einkaréttarlegum úrræðum vegna tjóns sem þeir hafa orðið fyrir vegna þjófnaðar, svika, skemmdarverka og svipaðra brota. Þessu úrræði er hins vegar ekki ætlað að koma í stað úrræða opinbers réttar. Í raun er því um einkaréttarlega bótakröfu að ræða. Þá komu fram efasemdir um að telja mætti slíkt samþykki vera frjálst og óþvingað. Hollendingar sögðu sambærilegt fyrirkomulag ekki vera viðhaft í Hollandi.

Mál þetta var rætt á fundi fulltrúa Persónuverndar og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins hinn 11. júní 2008. Á þeim fundi kom fram að auk þess sem þjófi yrði gert að skila stolnu verðmæti myndi hann greiða tiltekna fjárhæð til verslunareigandans. Var ákveðið að Samtök atvinnulífsins myndu kynna verkefnið með ítarlegri hætti. Umbeðin kynning barst Persónuvernd með bréfi, dags. 19. júní 2008. Með fylgdu „Drög 2-11 júní 2008" að verklagsreglum fyrir umrætt verkefni. Í bréfinu var óskað eftir viðbrögðum Persónuverndar og sú ósk ítrekuð með tölvupósti frá samtökunum, dags. 3. september 2008.

Forstjóri ræddi málið símleiðis við lögmann Samtaka atvinnulífsins og fékk í framhaldi af því tölvubréf frá honum, dags. 12. september 2008. Þar sagði:

„Með vísan til símtals mín við Sigrúnu Jóhannesdóttur eru hér viðbótarupplýsingar um endurheimt verðmæta.

1. Í bréfi til Persónuverndar dags. 19. júní 2008 er í 7. tl. mælt fyrir um gagnagrunna fyrir endurheimt verðmæta. Til útskýringar viljum við taka fram að ef um það er að ræða að einstök fyrirtæki semji við þjónustuaðila eins og öryggisfyrirtæki um að annast endurheimt verðmæta fyrir sig og þar með að halda utan um gagnagrunn þar sem þeir aðilar eru skráðir sem gert hafa samkomulag um endurheimt verðmæta, verður það gert á þann hátt að fyrirtækið sjálft sem rekur verslunina verður ábyrgðaraðili gagnagrunnsins en þjónustufyrirtækið vinnsluaðili. Ef þjónustufyrirtækið er með slíka samninga við fleiri en eitt fyrirtæki mun það halda gagnagrunnum þeirra aðskyldum, þannig að ekki verði til einn miðlægur gagnagrunnur.

2. Gert er ráð fyrir í verklagsreglum að hvert það fyrirtæki sem vilji taka þátt í þessu verkefni um endurheimt verðmæta tilkynni slíkt sérstaklega til Persónuverndar í samræmi við almennar tilkynningareglur stofnunarinnar.

3. Eftir samtöl við lögreglu hefur verið ákveðið að hverfa frá þeirri tilhögun að senda afrit samkomulaga um endurheimt verðmæta til lögreglu og hefur verklagsreglum verið breytt til samræmis.

4. Búið er að fastsetja fjárhæðir sem farið verður fram á þegar gert er samkomulag um endurheimt verðmæta, sbr. eftirfarandi töflu. [...]

Sé varan óseljanleg bætist verðmæti hennar við bótagreiðsluna. [...]

5. Áhersla er lögð á að tjónvaldar eigi ávallt val um hvort þeir vilji gera samkomulag um endurheimt verðmæta eða að málið fari í sinn hefðbundna farveg. Ef tjónvaldar telja á einhverjum tímapunkti að samkomulagið sé ósanngjarnt eða þeir vilja ekki greiða fjárhæðina sem þeir hafa samþykkt að greiða mun ekki hefjast innheimtuferli á hendur tjónvaldi. Mun þess í stað málið verða kært til lögreglu á hefðbundinn máta. Meðan ekki er til staðar lagaheimild til innheimtu bóta í þjófnaðarmálum mun ekki koma til þess að mál af þessu tagi fari til dómstóla.

6. Í verklagsreglum er gert ráð fyrir að einungis verði gert samkomulag um endurheimt verðmæta við lögráða einstaklinga sem tala og skilja íslensku og eru ekki auðsjáanlega andlega vanheilir eða undir áhrifum áfengis eða vímuefna."

2.

Afstaða dómsmálaráðuneytisins,

Ríkissaksóknara, Ríkislögreglustjóra

og Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðis.

Í gögnum málsins liggja fyrir bréf um afstöðu dómsmálaráðuneytisins, Ríkissaksóknara og Ríkislögreglustjóra, en þau álit höfðu verið veitt Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ). Þá liggur fyrir afstaða Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Í bréfi Ríkissaksóknara, dags. 26. október 2007, segir m.a.:

„Ekki verður séð að nokkuð sé því til fyrirstöðu að samtök verslana efni nú þegar til „Civil Recovery", þ.e. samræmdrar og skipulagðrar innheimtu á tjóni sem verslanir verða fyrir vegna búðahnupls etc. Bent skal á í því sambandi að kaupmaður hefur heimild til að handtaka þann sem staðinn er að búðahnupli, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, en hinum handtekna er ekki skylt að veita kaupmanni upplýsingar um nafn sitt og heimili.[...] Samkvæmt framangreindu tel ég ekki vera ástæðu til sérstakrar lagasetningar til að koma á því fyrirkomulagi sem á ensku er nefnt „Civil Recovery".

Í bréfi Ríkislögreglustjóra, dags. 30. nóvember 2007, segir m.a.:

„Það er mat SVÞ að gera þurfi endurbætur á meðferð lögreglu- og dómsmálayfirvalda vegna þjófnaðarmála í verslunum. Leggur SVÞ til að verslunum verði heimilað að beita borgaralegri sátt vegna þjófnaða úr verslunum. Í borgaralegri sátt felst að starfsmönnum verslana verði heimilt að skrá nafn og aðrar upplýsingar um meinta brotamenn og krafið þá um greiðslu fyrir því tjóni sem þeir kunna að hafa valdið. Eins og fram kemur í erindi SVÞ þá er ekki lagaheimild fyrir slíku fyrirkomulagi. Ríkislögreglustjóri telur ekki æskilegt að verslunum verði heimilað að taka sér hlutverk ríkisvaldsins, þ.e. að ákvarða refsingu eða önnur refsikennd viðurlög við brotum á almennum hegningarlögum. Má ætla að almenn varnaðaráhrif refsinga nái ekki fram að ganga ef einstaklingum utan réttarvörslukerfisins verður heimilað að ákveða hvort meint brot borgara hljóti rannsókn og málsmeðferð að hætti opinberra mála. Loks er bent á að yrði slíkt úrræði tekið upp gæti það falið í sér mismunun borgara þar sem eðlisskyld þjófnaðarmál kynnu að verða meðhöndluð með ólíkum hætti frá einni verslun til annarrar".

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 8. febrúar 2008, segir m.a.:

„Úrræði þessu er beitt samhliða hefðbundinni refsimeðferð, þ.e. í þeim tilvikum sem þjófnaður er kærður, en kemur ekki í stað hennar. Ráðuneytið telur því að ekki þurfi lagabreytingar til að samtök verslana efni nú þegar til „Civil Recovery" [...]."

Forstjóri Persónuverndar ræddi málið símleiðis við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Hann svaraði með tölvupósti, dags. 11. september, og sagði m.a : „...það er ljóst að engar athugasemdir eru frá okkur eða embætti ríkissaksóknara vegna þessara áforma um sáttamiðlun á vettvangi þegar um hnuplmál er að ræða."

II.

Niðurstaða

1.

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, taka til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða ætlað er að verða hluti af skrá, sbr. ákvæði 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 eru upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til eins tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. Falla þær upplýsingar sem erindi Samtaka atvinnulífsins tekur til því undir hugtakið „persónuupplýsingar" í skilningi laga nr. 77/2000.

Öll vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga þarf að eiga sér stoð í einhverju þeirra heimildarákvæða sem talin eru upp í 1. mgr. 8. gr. og, sé um viðkvæmar upplýsingar að ræða, einnig í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Til viðkvæmra persónuupplýsinga teljast m. a. upplýsingar um að einstaklingur hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. sömu laga. Yrði fyrirhuguð vinnsla því að eiga sér stoð bæði í 1. mgr. 8. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 og að samræmast þeim grundvallarsjónarmiðum sem lögfest eru í 7. gr. laganna. Þar segir m. a. í 1. tölul. 1. mgr. að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti. Af því leiðir að þótt við fyrstu sýn virðist vinnsla geta átt sér stoð í einhverjum af töluliðum 1. mgr. 8. gr. og/ eða 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, þarf hún einnig að samrýmast öðrum gildandi réttarreglum.

2.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 22. september 2008. Að mati stjórnar eru miklar líkur á að nokkur hluti þeirra „samninga", sem hugmyndir Samtaka atvinnulífsins gera ráð fyrir að komast myndu á milli fyrirsvarsmanna verslana og ætlaðra brotamanna, yrðu ekki gildir að lögum. Máli skiptir við hvaða aðstæður stofnað er til „samnings" um greiðslu fjárhæðar og þann aðstöðumun sem er á milli aðila. Hafa ber í huga að sá, sem fær boð um að ganga til slíkra samninga, er háður fyrirsvarsmanni verslunar um að ætlað brot hans verði ekki kært til lögreglu. Ennfremur eiga þær verslanir, sem bjóða upp á slíka „samninga", ekki lögvarða kröfu á hendur hinum ætlaða brotamanni þegar boðið er upp á samninginn þannig að bersýnilegt misvægi er á milli hagsmuna og endurgjalds. Verður ekki litið svo á að um eiginlegar bætur geti talist vera að ræða - einkum þegar litið er til þess að gerð er krafa um sérstaka fyrirfram ákveðna greiðslu úr hendi meints hnuplara án tengsla við það hvort verðmæti hafi endurheimst óskemmd eða ekki. Persónuvernd telur að líta ber til eftirfarandi lagaákvæða:

2.1

Ákvæði almennra hegningarlaga

Í 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1941 segir:

Hver, sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

2.2

Ákvæði samningalaga

Líta ber til 29., 31. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Í 29. gr. segir: „Hafi maður með ólögmætum hætti neytt annan mann til að gera löggerning, og þó eigi beitt slíkri nauðung, sem ræðir um í 28. gr., þá er sá löggerningur eigi skuldbindandi fyrir þann, sem neyddur var, ef sá maður, sem tók við löggerningnum, hefir sjálfur beitt nauðunginni eða hann vissi eða mátti vita, að löggerningurinn var gerður vegna ólögmætrar nauðungar af hálfu annars manns".

Í 31. gr. segir: „Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum. Sama gildir þótt annar maður en sá, sem gerningurinn var gerður við, eigi sök á misferli því sem getið er í 1. málsl. þessarar greinar, enda sé þeim, er haginn átti að hafa af gerningnum, það kunnugt eða megi vera það kunnugt". "

Í 36. gr. segir: „Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, [sbr. þó 36. gr. c].1) Hið sama á við um aðra löggerninga.

Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

36. gr. a. Ákvæði 36. gr. a–d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d. Ákvæðin gilda einnig um samninga milli neytenda sem atvinnurekandi stendur að fyrir annan aðilanna.

Á atvinnurekandanum hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og hann falli ekki undir 1. mgr.

36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Regla 2. málsl. 1. mgr. gildir ekki þegar aðilar eða stofnanir sem hafa það hlutverk að vernda neytendur geta gripið til aðgerða samkvæmt landslögum til að fá úr því skorið hvort samningsskilmálar sem ætlaðir eru til almennrar notkunar séu ósanngjarnir.

36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.

Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

36. gr. d. Ef ákvæði samnings tengist náið landsvæði EES-ríkja þannig að samningurinn sé t.d. gerður þar eða einhver samningsaðila búi þar og samingsákvæði kveður á um að löggjöf lands utan Evrópska efnahagssvæðisins skuli gilda um samninginn skal ákvæðið ekki gilda um ósanngjarna samningsskilmála ef neytandinn fær við það lakari vernd gegn slíkum skilmálum en samkvæmt viðeigandi löggjöf lands á efnahagssvæðinu. [Ef ákvæði samnings tengist landsvæði aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja með samsvarandi hætti skal neytandinn eigi njóta lakari verndar en samkvæmt löggjöf viðkomandi lands á svæðinu".

3.

Persónuvernd tekur ekki, í almennu áliti sem þessu, endanlega afstöðu til lögmætis fyrrgreindra hugmynda Samtaka atvinnulífsins en tekur fram að berist henni einstakar kvartanir mun hún taka þær til efnislegrar meðferðar eftir því sem efni standa til. Við mat og umfjöllun um slík mál verður þess gætt að lögmæti og gildi hvers gerðs samnings ræðst af mati á aðstæðum hverju sinni.

Persónuvernd tekur þó fram að hún telur, í ljósi alls sem að framan er rakið, að lögmæti fyrirætlana Samtaka atvinnulífsins orki mjög tvímælis. Tekur hún undir sjónarmið Ríkislögreglustjóra, sbr. bréf hans dags. 30. nóvember 2007, varðandi skort á lagaheimild fyrir slíku fyrirkomulagi sem samtökin hafa nefnt „Endurheimt verðmæta". Þá er hún sammála Ríkislögreglustjóra um að óæskilegt sé að verslunum verði heimilað að taka sér hlutverk ríkisvaldsins, þ.e. að ákvarða refsingu eða önnur refsikennd viðurlög við brotum á almennum hegningarlögum og að yrði slíkt úrræði tekið upp gæti það falið í sér mismunun borgara þar sem eðlisskyld þjófnaðarmál kynnu að verða meðhöndluð með ólíkum hætti frá einni verslun til annarrar. Þá bendir Persónuvernd á að umsögn dómsmálaráðuneytisins, dags. 8. febrúar 2008, þar sem ekki er lagst gegn hugmundum samtakanna, miðar við að úrræðinu yrði beitt samhliða hefðbundinni refsimeðferð en kæmi ekki í stað hennar. Í tölvupósti lögmanns Samtaka atvinnulífsins, dags. 12. september 2008, segir hins vegar að mál verði ekki kærð til lögreglu nema ekki verði staðið við gerðan „samning" .

Forsenda fyrir lögmæti þess að færa á skrá nafn þess sem gengst undir slíkan „samning" er að hann sé löglegur og gildur. Berist Persónuvernd kvörtun frá einstaklingi um að nafn hans hafi verið skráð í tilefni af slíkum „samningi" mun hún því leggja mat á gildi „samningsins" eftir framangreindum ákvæðum samningalaga. Í ljósi þess við hvaða aðstæður stofnað er til umræddra „samninga" og þess að við upphaf samningaumleitana á viðkomandi verslun ekki lögvarða kröfu til þeirrar greiðslu sem krafist er, verður almennt að leggja sönnunarbyrðina fyrir lögmæti samningsins, og þar með heimild fyrir skráningu persónuupplýsinganna á hlutaðeigandi verslun, sem ábyrgðaraðila vinnslunnar.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820