Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Bréf Persónuverndar til formanns heilbrigðisnefndar Alþingis og heilbrigðisráðherra

5. ágúst 2008

Merki - Persónuvernd

Efni: Varðveislutími persónuupplýsinga í lyfjagagnagrunnum á Norðurlöndunum

Hinn 30. maí sl. voru á Alþingi samþykkt lög nr. 97/2008 um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994, m.a. 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna. Í því ákvæði var mælt fyrir um að persónugreinanleg gögn í lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins, sem komið var á fót með lögum nr. 89/2003 um breytingu á lyfjalögum, skyldu varðveitt í þrjú ár. Með lögum nr. 97/2008 var hins vegar varðveislutími gagna lengdur í þrjátíu ár.

Í nefndaráliti meirihluta heilbrigðisnefndar Alþingis frá 27. maí sl. (þskj. 1163, 464. mál á 135 löggjafarþingi 2007–2008) er þessi framlenging varðveislutímans m.a. rökstudd með því að samkvæmt umsögn Landlæknisembættisins um það frumvarp, sem varð að lögum nr. 97/2008, væru gögn í svipuðum gagnagrunnum á Norðurlöndunum varðveitt í þrjátíu ár. Með tölvubréfi hinn 29. maí sl. benti Persónuvernd á að svo er ekki. Hér með ítrekar Persónuvernd þessa athugasemd sína og bendir jafnframt á eftirfarandi atriði:

Samkvæmt danskri löggjöf, þ.e. reglugerð um skrá Lyfjastofnunar yfir rafræn lyfjasnið einstaklinga (d. bekendtgørelse om Lægemiddelstyrelsens register over Personlige Elektroniske Medicinprofiler (PEM), nr. 378/2006), skal upplýsingum um lyfjakaup einstaklinga eytt tveimur árum eftir skráningu (sjá 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar).

Samkvæmt norskri löggjöf, þ.e. reglugerð um öflun og meðferð heilsufarsupplýsinga í Lyfjaávísanaskrá (n. forskrift om innsamling og behandling av helseopplysninger i Reseptbasert legemiddelregister (Reseptregisteret)), eru upplýsingar í þarlendum lyfjagagnagrunni ekki auðkenndar með persónuauðkennum heldur dulkóðunarnúmerum, þ.e. svonefndum dulnefnum (n. pseudonymer). Upplýsingum er ekki eytt, en samkvæmt reglugerðinni er óheimilt að nota dulnefni til að endurskapa kennitölu sjúklings eða númer heilbrigðisstarfsmanns (sjá grein 3-1). Þá má enginn, þ. á m. sá sem hefur dulkóðun með höndum (n. Tiltrodd pseudonymforvalter (TPF)), fá aðgang að dulnefnum, lyfseðlum og kennitölu sjúklings eða númeri heilbrigðisstarfsmanns samtímis (sjá grein 4-1). Má af þessu sjá að útilokað á að vera að leysa úr dulnefnum þannig að út komi persónuauðkenni viðkomandi einstaklinga. Norski lyfjagagnagrunnurinn er því ekki sambærilegur við lyfjagagnagrunn Landlæknisembættisins.

Samkvæmt sænskri löggjöf, þ.e. lögum um lyfseðlaskrá (s. lag (1996:1156) om receptregister), skal persónugreinanlegum upplýsingum í þarlendum lyfjagagnagrunni ýmist eytt eftir þrjá eða 15 mánuði (sjá 8. gr. laganna).

Samkvæmt finnskri löggjöf, þ.e. lögum um rafræna lyfseðla (s. lag om elektroniska recept 2.2.2007/61) skulu upplýsingar í þarlendum lyfjagagnagrunni varðveittar í 30 mánuði og svo tíu ár til viðbótar í sérstökum grunni sem strangari aðgangsheimildir eru að (sjá 19. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna).

Persónuvernd bendir á framangreind atriði í ljósi mikilvægis þess að Alþingi og ráðherra hafi undir höndum réttar upplýsingar um það málefni sem hér um ræðir. Ef til frekari lagasetningar kemur um skráningu og varðveislu upplýsinga um lyfjakaup – og líta á til löggjafar í nágrannalöndunum – væntir Persónuvernd þess að framangreindar staðreyndir verði hafðar í huga.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820