Nýjar reglur um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga
22. júlí 2008
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 30. júní voru samþykktar nýjar reglur um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga.
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 30. júní voru samþykktar nýjar reglur um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Reglurnar hafa stjórnartíðindanúmerið 712/2008 og taka gildi þann 1. nóvember.
Reglur nr. 712/2008 munu leysa af hólmi reglur nr. 698/2004, sem falla úr gildi um leið og nýju reglurnar taka gildi. Hinar nýju reglur eru talsvert öðruvísi en eldri reglur, bæði að efni og uppsetningu.
Má sem dæmi nefna að erfðarannsóknir eru ekki lengur háðar leyfi frá Persónuvernd ef upplýst samþykki þátttakenda liggur fyrir eða önnur ótvíræð heimild. Þó verður skylt að senda Persónuvernd tilkynningar um slíkar rannsóknir og að fylgja reglum persónuverndarlaga hvað varðar réttindi þeirra einstaklinga sem unnið er með erfðaefni úr. Þá stefnir Persónuvernd að setningu almennra reglna um hvernig standi skuli að framkvæmd slíkra rannsókna.
Þá er að finna nýtt ákvæði um svokallaða svarta lista. Er nú leyfisskylt að færa nafn manns á skrá eftir fyrirfram ákveðnum viðmiðum og miðla upplýsingunum til þriðja aðila í því skyni að neita manninum um tiltekna fyrirgreiðslu eða þjónustu.
Loks er vakin athygli á breytingu varðandi samkeyrslu skráa með viðkvæmum persónuupplýsingum. Slík samkeyrsla hefur ekki verið háð leyfi Persónuverndar hafi báðar/allar skrárnar verið haldnar af sama ábyrgðaraðila. Nú er slík samkeyrsla hins vegar leyfisskyld séu skrárnar miðlægar, en með því átt við skrár sem hafa að geyma upplýsingar um alla einstaklinga hér á landi sem uppfylla ákveðin viðmið, óháð búsetu.