Eftirlitsmyndavélar í lögreglubifreiðum
26. nóvember 2007
Persónuvernd hefur borist nokkuð af fyrirspurnum um heimildir lögreglu til þess að beina myndavélum að fólki úr lögreglubifreiðum.
Persónuvernd hefur borist nokkuð af fyrirspurnum um heimildir lögreglu til þess að beina myndavélum að fólki úr lögreglubifreiðum.
Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu skal, þegar löggæsla fer fram með rafrænni vöktun á almannafæri, með merki eða á annan áberandi hátt gera glögglega viðvart um þá vöktun.
Í tilefni af fyrirspurnunum óskaði Persónuvernd því eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóraembættinu um hvort lögreglan beindi eftirlitsmyndavélum að almenningi úr lögreglubifreiðum og, ef svo væri, hvernig viðvörunarskyldunni væri fullnægt og hvernig farið væri með myndefni sem þannig safnaðist.
Tekið skal fram að ekki var átt við upptöku myndefnis í þágu rannsóknar opinbers máls heldur færanlega rafræna vöktun, en þar er t.a.m. ekki átt við myndatöku þar sem eingöngu eru teknar myndir af bifreiðum sem aka yfir hámarkshraða eða myndbandsupptöku sem sett er í gang þegar lögregla hefur afskipti af mönnum af gefnu tilefni, heldur stöðuga myndbandsupptöku þar sem myndavél er beint úr lögreglubifreið að svæði á almannafæri.
Í svarbréfi ríkislögreglustjóraembættisins, dags. 31. júlí sl., segir eftirfarandi:
Í hluta lögreglubifreiða hefur verið komið fyrir ratsjártækjum með myndavélum (Eyewitness búnaður) sem nota má við löggæslustörf. Árin 2005 og 2006 var komið fyrir samtals 12 slíkum ratstjártækjum í lögreglubifreiðar. Þann 1. febrúar sl. var undirritaður samningur um stóraukið umferðareftirlit lögreglu og sjálfvirkt hraðaeftirlit en að þeim samningum koma ríkislögreglustjóri, Umferðarstofa og Vegagerðin f.h. samgönguráðuneytisins. Í fréttatilkynningu í kjölfar undirritunar samningsins var tekið fram að til stæði á árunum 2007-2008 að fjármagna kaup á samtals 18 ratsjártækjum með myndavélum og 8 bifhjólum með slíkum búnaði. Tilgangur þessa búnaðar, sem tekur upp hljóð og mynd, er að varðveita sönnunargögn um umferðarlagabrot og önnur afbrot sem sæta afskiptum lögreglunnar hverju sinni.
Viðbótaupplýsingar voru veittar með bréfi, dags. 17. september sl., þar sem segir:
Ríkislögreglustjórinn hefur á liðnum árum sett verklagsreglur, leiðbeiningar og fyrirmæli um margvísleg atriði er lúta að löggæslustörfum - lögreglustjórum, lögreglumönnum og öðrum starfsmönnum lögreglunnar til eftirbreytni - og er sitthvað framundan í þeim efnum.
Verklagsreglur um hljóð- og myndbandsupptökur sem stýrt er með búnaði í lögreglubílum og bifhjólum lögreglunnar, í þágu rannsóknar opinberra máls, oft í samskiptum við ökumenn, hafa ekki verið settar svo sem gert hefur verið um notkun eftirlitsmyndavéla og meðferð upplýsinga úr þeim, sbr. seinna bréf Persónuverndar, enda verður þessu tvennu ekki jafnað saman. Megin tilgangur með hljóð- og myndupptöku í lögreglubílum og bifhjólum lögreglunnar er að skrásetja brot sem framin hafa verið og taka niður frásögn grunaðra og vitna með rafrænum hætti í þágu rannsóknar máls.
Um nokkurt skeið hefur ríkislögreglustjórinn unnið að því að skýrslur þeirra sem yfirheyrðir eru verði teknar á hljóðband eða á mynddisk, sbr. 72. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga 86/2004 og reglugerð 826, 6. september 2005. Þrátt fyrir ítarlega löggjöf um þessi efni má reikna með að þegar nær dregur verði settar verklagsreglur um vörslu og afritun slíkra gagna og má telja víst að samráð verði við ríkissaksóknara um þá framkvæmd.
Meðferð gagna á hljóðbandi eða myndbandi eða mynddiski er með sama hætti og um önnur sem aflað er í þágu rannsóknar opinbers máls.
Lögreglumenn á vettvangi, og eftir því sem við á, gera þeim sem afskiptum sæta grein fyrir því að samtöl verði tekin upp á hljóðband, atburðarás hafi verið fest á mynddisk, að þessar upptökur séu þegar hafnar og þeim verði haldið áfram í lögreglubílum.
Þá kom eftirfarandi fram í bréfi ríkislögreglustjóraembættisins, dags. 9. nóvember sl.:
Upptaka myndavéla í bifreiðum og bifhjólum lögreglu er ekki stöðug, viðvarandi né reglubundin. Upptaka í myndavélum er sett í gang í þeim tilvikum er fyrir liggur rökstuddur grunur um refsiverðan verknað. Þar sem ekki er um að ræða færanlega rafræna vöktun er ekki þörf á viðvörunarskyldu skv. 11. gr. reglugerðar nr. 322/2001.
Í ljósi þessara upplýsinga frá ríkislögreglustjóra taldi Persónuvernd ekki efni til frekari afskipta, en hefur þó ítrekað mikilvægi þess að einstaklingum séu ávallt veittar upplýsingar um hljóð- og myndupptöku áður en þeir stíga upp í lögreglubifreiðar.