Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Ákvörðun varðandi umsóknareyðublöð hjá Menntaskólanum Hraðbraut

9. október 2007

Hinn 5. október 2007 tók stjórn Persónuverndar ákvörðun varðandi umsóknareyðublað sem Menntaskólinn Hraðbraut hefur lagt fyrir umsækjendur um skólavist sem orðnir eru 18 ára eða eldri

Merki - Persónuvernd

Niðurstaða Persónuverndar að breyta skyldi umsóknareyðublaði í samræmi við sjónarmið Persónuverndar

Hinn 5. október 2007 tók stjórn Persónuverndar ákvörðun varðandi umsóknareyðublað sem Menntaskólinn Hraðbraut hefur lagt fyrir umsækjendur um skólavist sem orðnir eru 18 ára eða eldri. Í umsóknareyðublaðinu er spurt hvort viðkomandi eigi við lestrarerfiðleika að stríða, ofvirkni, athyglisbrest eða hegðunarvandamál og einhver líkamleg veikindi. Þá er spurt hvort viðkomandi hafi leitað sér læknisaðstoðar vegna sálrænna vandamála eða leitað sér aðstoðar vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu, sem og hvort viðkomandi reyki.

Stjórn Persónuverndar vísaði til þeirra skilyrða sem samkvæmt lögum og reglum eru fyrir inngöngu í framhaldsskóla. Þau lúta aðeins að námsárangri. Taldi stjórn Persónuverndar, í ljósi hinnar óskráðu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, að ekki yrði séð að við afgreiðslu umsókna um skólavist mætti setja skilyrði sem vikju frá lögbundnum skilyrðum eða viðbótarskilyrði sem hefðu í för með sér takmörkun á lögbundnum réttindum.

Í ljósi m.a. þessa, auk krafna 7. gr. laga nr. 77/2000 um skýran, yfirlýstan og málefnalegan tilgang og meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga, taldi Persónuvernd að öflun upplýsinga um reykingar umsækjenda væri óheimil, enda kom fram af hálfu skólans að ekki væri neinn tilgangur með öflun þeirra upplýsinga. Þá taldi Persónuvernd að ekki mætti afla upplýsinga um aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnafíknar, sem og læknisaðstoð vegna sálrænna vandamála, í þeim tilvikum þegar viðkomandi umsækjandi hefði þegar sigrast á fíkn sinni eða ætti ekki lengur við hin sálrænu vandamál að stríða.

Öflun annarra upplýsinga, sem óskað væri eftir á umsóknareyðublaðinu, taldi Persónuvernd geta samrýmst framangreindum kröfum. Þá þyrfti umsækjendum hins vegar að vera frjálst að ákveða hvort þeir gæfu um sig upplýsingar eða ekki, auk þess sem þeir þyrftu að vita hvers vegna upplýsinganna væri aflað. Þetta merkti að ekki mætti t.d. gera fyrirvara um hugsanlegan brottrekstur úr skóla væru upplýsingar ekki veittar, sem og að tilgangur upplýsingaöflunarinnar þyrfti að liggja fyrir. Í ljósi þessa mætti telja eðlilegast að upplýsinga væri aflað með þeim hætti að nemendur væru beðnir um að t.d. haka við tiltekna reiti á umsóknareyðublaði þar sem fram kæmi hvort þeir óskuðu sérstakrar þjónustu vegna lestrarerfiðleika, athyglisbrests eða veikinda, hvort sem þau væru líkamleg eða andleg.

Varð niðurstaða Persónuverndar sú að Menntaskólinn Hraðbraut skyldi breyta því eyðublaði, sem hann notaði fyrir umsóknir um skólavist, í ljósi framangreindra sjónarmiða.

Ákvörðun Persónuverndar

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820